Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

WHO varar við lyfi sem Trump fékk við COVID-19

20.11.2020 - 09:27
epa07861283 US President Donald J. Trump answers reporter's questions as he departs the White House for a trip to Texas and Ohio before continuing to New York to attend the opening of the United Nations, in Washington, DC, USA, 22 September 2019.  EPA-EFE/RON SACHS / POOL
 Mynd: RON SACHS - EPA
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, gaf í morgun út tilkynningu um að stofnunin mæli gegn því að lyfið remdesivir sé gefið þeim sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús. Það er breiðvirkandi lyf sem notað hefur verið gegn veirusýkingum. Í tilkynningu WHO segir að engu skipti hversu veikir sjúklingarnir séu því ekki séu nein gögn sem bendi til þess að lyfið auki lífslíkur þeirra sem veikist af COVID-19. Lyfið var meðal annars gefið Bandaríkjaforseta þegar hann smitaðist af kórónuveirunni.

Í sumar virtust allir hafa tröllatrú á remdesivir því þá kepptust þjóðir heims við að verða sér úti um birgðir af því. 

Lyfið hefur verið gefið COVID-sjúklingum hér á landi. Már Kristjánsson, yfirlæknir á Landspítalanum, sagði í samtali við fréttastofu RÚV 11. ágúst sl.: „Við notum það þegar fólk er veikara og beitum þá sterum með sem er svona sterkt bólgueyðandi lyf. Við sáum engar aukaverkanir, þessar hættulegu aukaverkanir sem menn voru að sjá á borð við hjartsláttartruflanir og þessháttar í rannsóknum erlendis. Við höfum ekki séð það neitt hér á Íslandi,“ sagði Már í ágúst.