Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þurfum á tilfinningaríkri tónlist að halda

Mynd: RÚV / RÚV

Þurfum á tilfinningaríkri tónlist að halda

20.11.2020 - 09:20

Höfundar

Ólafur Arnalds hefur sent frá sér nýja breiðskífu sem skaust beint í 17. sæti breska vinsældarlistans.

Platan nefnist Some Kind of Peace og segir Ólafur að þetta sé hans persónulegasta verk til þessa.  

„Ég er vanur að vinna með stórar hugmyndir sem ég á til að setja fyrir framan músíkina. Í fyrra sagði vinur minn: „Ólafur, það er alltof auðvelt að fela sig á bakvið hugmyndir. Þú ert að gera persónulega músík, leyfðu því að skína.“ Ég tók þetta til mín og það varð kveikjan að plötunni. Að leyfa sér að vera brothættur og setja sjálfan sig fyrir framan tónlistina; skrifa tónlist um það sem er að eiga sér stað í þínu lífi, þótt hún sé textalaus og abstrakt.“

Um það bil helmingur tónlistarinnar var tilbúinn um áramót en afgangurinn var saminn á þessu ári. Ólafur segir að ástandið vegna Covid-faraldursins hafi staðfest áttina sem hann vildi fara í. 

„Ég vildi gera plötu sem snýst um þá sem eru manni nánastir, um ritúala og svoleiðis hluti. Þegar þetta ástand byrjaði varð ég staðfastari í því að leyfa tónlistinni að vera persónuleg og snerta fólk. Ég held að við þurfum öll á því að halda að heyra tónlist sem leyfir okkur að dvelja með tilfinningum okkar.“

Rætt var við Ólaf í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ólafur Arnalds tilnefndur til Emmy-verðlauna

Klassísk tónlist

Sjálfspilandi píanó Ólafs Arnalds

Popptónlist

„Erum bara að spila spil og fara á trúnó“

Tækni og vísindi

Tónlist Ólafs send tólf ljósár út í geiminn