Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Pfizer sækir um leyfi í Bandaríkjunum í dag

20.11.2020 - 15:51
epa08809582 (FILE) - A composite image showing logos of German biopharmaceutical company BionTech in Mainz, Germany, 18 March 2020, and logo outside Pfizer headquarters in New York, New York, USA, 04 December 2015 (reissued 09 November 2020). Both Pfizer and BioNTech announced 09 November 2020 their jointly developed vaccine against Coronavirus in the trials conducted on 43,500 people in six countries, Germany, USA, Turkey, Brazil, South Africa and Argentina showed a 90 per cent protection against the virus, something they said may be achieved seven days after the 2nd dose. In total, two doses that are taken three weeks apart will be needed to acchieve the desired result.  EPA-EFE/RONALD WITTEK / ANDREW GOMBERT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríski lyfjarisinn Pfizer og þýski lyfjaframleiðandinn BioNTech hafa gefið það út að fyrirtækin muni sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir dreifingu bóluefnis í dag, fyrr en áætlað var. Ákvörðunin var tekin í ljósi hraðrar fjölgunar smita og yfirvofandi samkomutakmarkana í Bandaríkjunum, ekki síst í New York og Kaliforníu. AFP fréttastofan greinir frá.

Fyrirtækin tvö hafa unnið sameiginlega að þróun bóluefnis og greint var frá því fyrr í mánuðinum að prófanir á því lofuðu góðu. Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna tekur ákvörðun um það hvort fyrirtækjunum verði veitt bráðabirgðaleyfi fyrir dreifingu bóluefnisins. Fyrirtækin hafa sagst tilbúin til að dreifa efninu um leið og þau fá leyfi til. 

Óvíst er hversu langan tíma það tekur stofnunina að taka ákvörðun um leyfisveitingu en bandarísk stjórnvöld hafa sagst búast við að leyfið verði veitt snemma í desember. Um 41.000 manns tóku þátt í prófunum á bóluefninu, helmingur fékk efnið og hinn helmingurinn ekki. 

Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, sagði í Kastljóssviðtali í síðustu viku að hún óttaðist ekki að lyfjafyrirtækin hefðu stytt sér leið. „Vegna þess að, í fyrsta lagi er mjög strangt regluverk, og það er kannski strangara um bóluefni, sem er forvarnarefni, heldur en um lyf þar sem er verið að meðhöndla þá sem eru veikir. Það er mjög stíft ferli sem er fylgt og það eru eftirlitsstofnanir,“ sagði hún.

Þá talaði hún um að fjöldinn sem hefði verið prófaður væri sambærilegur þeim fjölda sem almennt tekur þátt í rannsóknum sem þessum. Hún talaði einnig um að það skipti máli að rannsóknir hefðu verið gerðar á fólki af ólíkum uppruna og fólki í áhættuhópum. „Það er til þess að sjá strax hvort fólk sem er í mestri hættu sé jafn vel varið eins og þeir sem eru yngri og hraustari,“ sagði hún.