Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óbreytt fyrirkomulag á landamærunum til 1. febrúar

Mynd: RÚV / RÚV
Fyrirkomulagið í kringum landamæraskimun og sóttkví við komuna til landsins verður óbreytt til 1. febrúar á næsta ári. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þess efnis á ríkisstjórnarfundi í dag.

„Ég gerði tillögu til ríkisstjórnar sem var samþykkt um að núverandi fyrirkomulag, sem gildir til 1. desember, verði framlengt til 1. febrúar 2021. Þannig að þetta verður semsagt með óbreyttu sniði komandi tvo mánuði og við teljum raunar að þetta fyrirkomulag hafi gefist mjög vel þegar við horfum á sóttvarnalegt gildi þess. En við erum að vinna í því hvað mun taka við og þar eru ýmsar leiðir til skoðunar,“ segir Katrín. 

Nú gildir að þeir sem koma hingað til lands fara í skimun á Keflavíkurflugvelli og sæta fimm daga sóttkví þar til þeir eru skimaðir á ný. Ef farþegar hafna skimun þurfa þeir að sæta fjórtán daga sóttkví. 

Katrín segir að stefnt sé að því að ríkisstjórnin kynni nýtt fyrirkomulag 15. janúar. Nú sé verið að skoða allt frá þrefaldri skimun, þar sem ferðamenn eru skimaðir í heimalandi og svo tvisvar hér á landi, og yfir í ýmis tilbrigði við þá leið. Þá segir hún að verið sé að skoða hvernig eigi að haga sóttkví eða smitgát milli skimana.

Ekki verður tekið gjald fyrir skimun við komuna til landsins. Katrín segir að það sé til þess að koma í veg fyrir fólk velji að fara í fjórtán daga sóttkví í stað tveggja skimana. Hún segir að ekki standi til að þvinga fólk í skimun. 

Á fundinum var jafnframt tekin sú ákvörðun að frá og með 10. desember yrði tekið gilt vottorð um að fólk hefði fengið COVID-19 og að sýking væri afstaðin. Þeir sem framvísa vottorði fá undanþágu frá þeim kröfum sem annars eru gerðar.