Man Booker verðlaunin 2020

20.11.2020 - 15:20
Mynd: Manbooker2020 / Manbooker2020
Fríða Ísberg ljóðskáld og rithöfundur hefur auk þess að skrifa ljóð og smásögur undanfarin ár skrifað bókmenntaumfjöllun í breska vikuritið Times Literary Supplements. Nú hefur Fríða tekið að sér að segja hlustendum þáttarins Orð um bækur frá bókunum sem samkvæmt dómnefnd hinna víðsfrægu og virtu Man Booker verðlauna voru þær bestu sem komu út á ensku árið 2020. Hér má heyra tvo af þremur pistlum Fríðu þar sem hún segir frá öllum bókunum sex á sk. stuttlista.

MAN BOOKER, REAL LIFE, BURNT SUGAR, SHUGGIE BAIN
Frá stofnun Man Booker verðlaunanna, árið 1969, var krítería dómnefndarinnar einföld: að verðlauna árlega bestu skáldsöguna á enskri tungu, en hún þyrfti að vera skrifuð af ríkisborgara frá Breska samveldinu, Írlandi eða Zimbabwe. Breska samveldið, eða The Commonwealth, telur hvorki meira né minna en fimmtíu og fjögur fullvalda ríki, eða þau lönd sem áður tilheyrðu Breska heimsveldinu, og Breska heimsveldið var ekki kallað heimsveldi að ástæðulausu, meðal þessara landa eru Indland, Nígería, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland, Bangladesh, Ghana, Jamaica, Kenía og Mozambique, svo eitthvað sé nefnt.

            Þann 18. september 2013 varð hinsvegar breyting á; allar skáldsögur skrifaðar á enskri tungu kæmu hér með til greina, svo framarlega sem þær væru gefnar út í Bretlandi. Þessi ákvörðun hreyfði miklum mótmælum, breska bókmenntaelítan var ekki alls kostar sátt við að Bandaríkjamenn gætu hreppt hnossið með sér heim. En þetta nýja víðfeðmi hefur bara aukið vægi viðurkenningarinnar ef eitthvað er. Bara það að komast á langa tilnefningarlistann, eða the long list, sem samanstendur iðulega af 13 bókum, er bókmenntalegur sigur út af fyrir sig. Tveimur mánuðum síðar eru sex verk valin áfram af þessum þrettán, þau skipa the short list, sem orðabókin segir mér að þýða sem skammlistann – en – hljómar skammlisti ekki svolítið eins og sambland af svörtum lista og skammarkrók? Ég ætla að notast við orðið stuttlisti, mér til stuðnings eru orðin stuttermar, stuttbuxur og stuttmyndir.

            Þann 15. september síðastliðinn, var semsagt stuttlistinn í ár birtur, og líklega hefur hann aldrei verið fjölbreyttari en nú, enda erum við mitt í bókmenntalegri bylgju, og það er bylgja margbreytileikans. Í hinum vestræna bókmenntaheimi hefur margbreytileikinn aldrei fengið jafnsterkan meðbyr og nú, útgefendur keppast um að finna nýjar áhugaverðar raddir sem ekki hafa heyrst áður, þetta eru oft minnihlutahópar, jaðarhópar eða einfaldlega aðrir menningarheimar; skáldsögur sem gefa innsýn í líf einhverfra, líf mormóna, líf frumbyggja, líf innflytjenda, líf hinsegin fólks, svo eitthvað sé nefnt, og sömuleiðis virðast útgefendur ætla að hvíla sig aðeins á tilvistarlegri angist hvíta karlmannsins, að henni, ja, nánast, ólastaðri. Þetta endurspeglar vissulega stuttlistinn í ár, aðeins eitt verk er eftir hvítan karlmann frá Glasgow, og hann er samkynhneigður, hinn karlinn er reyndar líka samkynhneigður, en hann er svartur frá Bandaríkjunum, svo eru þetta fjórar konur, ein frá Indlandi, ein frá Zimbabwe, ein frá Eþíópíu, ein frá Bretlandi. 

Eftir tíu daga, þann 19. nóvember næstkomandi, fáum við svo að vita hvaða bók hlýtur verðlaunin. Í dag og næsta mánudag, ætla ég að fjalla stuttlega um bækurnar sex sem tilnefndar eru og eftir að verðlaunin verða tilkynnt munum við svo kafa dýpra í sigurverkið sjálft. Bækurnar sem ég mun fjalla um í dag eru allar þrjár fyrstu bækur höfunda, en þær eru Real Life eftir Brandon Taylor, Burnt Sugar eftir Avni Doshi og Shuggie Bain eftir Douglas Stuart.

            Fyrsta bókin sem ég las var Real Life eftir Brandon Taylor, sem fjallar um Wallace, svartan samkynhneigðan háskólanema, sem býr í ónefndu miðvesturríki í Bandaríkjunum. Hans aðalvinna í náminu felst í því að sitja á rannsóknarstofunni og rækta örsmáa orma. Í byrjun bókar er hinsvegar margra mánaða vinna farin í súginn þegar Wallace sér að gerlaþyrpingin hans er hálfdauð og restin deyjandi. Vinnu- og tímatjónið svíður, og hann ákveður því að fara út að vatninu til þess að hitta vinahópinn sinn úr skólanum. Faðir hans er nýdáinn, og Wallace mætti hvorki í jarðarförina né sagði sálu frá því. Vinir hans eru einnig lífefnafræðingar, en Wallace er sá eini sem er ekki hvítur í hópnum. Honum líður utangarðs, eins og hann sé ekki fullgildur meðlimur, að stundum bjóði þau honum og stundum ekki.

Við borðið situr Miller, strákur sem Wallace hefur óbeit á, eftir rasíska athugasemd í tíma nokkrum mánuðum fyrr. Þetta breytist hinsvegar þetta kvöld, þegar Miller þarf á óvæntri hjálp að halda inni á klósettinu, og eitthvað kviknar á milli þeirra. Miller segist ekki vera fyrir stráka en fer samt heim með Wallace. Bókin spannar heila helgi, frá föstudegi til sunnudagskvölds, og þó svo að takturinn sé hægur og Wallace kryfji samskipti, dínamík og aðstæður af jafn mikilli nákvæmni og örormana, las ég bókina eins og spennandi ástarróman, ég varð að vita hvort Wallace og Miller myndu enda saman eða ekki. Þematískt fjallar bókin þó um hversdagslegan rasisma og arf ofbeldis, hvernig þolandi ofbeldis verður gerandi ofbeldis annars staðar. Wallace og Miller koma báðir úr sárri fátækt og stunda nám sitt með hjálp skólastyrkja, og þekkja báðir ofbeldi af eigin raun. Stíllinn er kaldur og fjarlægur, eins og Wallace sjálfur, mér finnst margt mjög flott í þessari bók en sumt fullbandarískt; kynlífssenurnar eru stundum eins og kynlífsfantasíur og dramað er sápulegt á köflum.

Næsta bók sem ég las var Burnt Sugar eftir Avni Doshi. Sagan á sér stað í borginni Pune (borið fram Púnei) í Indlandi og fjallar um mæðgnasambandið milli Antöru, sem er sögumaðurinn, og Töru móður hennar, sem er með heilabilun. Antara er lygari af guðs náð og svolítill gallagripur, sem gerir frásögnina fyndna á köflum, hún er gift ríkum viðskiptamanni að nafni Dilip, en sjálf vinnur hún heima sem myndlistamaður og teiknar sama karlmannsandlitið á hverjum einasta degi.

Sagan flakkar fram og til baka frá fortíðinni til nútíðar, og segir frá uppvaxtarárum Antöru og hvernig móðir hennar brást skyldum sínum, þegar hún yfirgaf eiginmann sinn til þess að ganga í trúarsöfnuð og tók dóttur sína með. Þar féll hún fyrir trúarleiðtoga, eftirlét öðrum í klaustrinu uppeldið á dótturinni og andlega yfirgaf hana í mörg ár. Ef Antara grét eða mótmælti, kom Tara aðeins til þess að slá hana og segja henni að hlýða.

Í nútímanum fljúga ásakanirnar fram og til baka, hvorug virðist vera fullkomlega áreiðanlegur sögumaður, hvorki móðir né dóttir, en eftir því sem Töru hrörnar hraðar, fer Antara að örvænta yfir því að geta ekki gert sársaukafulla fortíðina upp. Tara byrjar að skilja dyrnar eftir galopnar heima hjá sér, gleymir að skrúfa fyrir krana og kveikir í matnum. Loks ákveður Antara að flytja móður sína inn á eigið heimili, en þá fara leyndarmál að leita upp á yfirborðið, sem eiginmaður Antöru má alls ekki komast að.

Þrátt fyrir særindi og svik er Antara bundin móður sinni, og getur ekki annað en gefið henni þá ummönnun sem hún sjálf fékk aldrei. Antara þolir ekki móður sína en getur samt ekki án hennar verið, í rauninni virðist hún ekki geta dregið skýr mörk á milli þess hvar hún sjálf byrjar og móðir hennar endar, saga móðurinnar er saga dótturinnar, kvenleggurinn óbrjótanlegur. 

            Þriðja bókin í röðinni er Shuggie Bain eftir Douglast Stuart þar sem sögusviðið er Glasgow, 1981 til 1992. Bókin byrjar og endar hjá 16 ára Shuggie, en annars er þetta nokkuð línuleg fjölskyldukróníka sem spannar heilan áratug. Agnes Bain, móðir Shuggie, er ærslafull, ævintýragjörn og fallegasta konan í austurhlutanum, þar sem hún býr í íbúð foreldra sinna með þremur börnum og eiginmanninum Shug Bain eldri, sem er leigubílstjóri og kvennabósi. Frá byrjun er nokkuð ljós að hjónin draga fram það versta í hvort öðru; Shug heldur framhjá og Agnes drekkur, Agnes drekkur og Shug heldur framhjá. Margret Thatcher er nýkjörin forsætisráðherra Bretlands, það er efnahagskreppa, þrjár milljónir manns eru án atvinnu og bróðurpartur þeirra verkamenn. Kolaiðnaðurinn er að hrynja og einmitt þarna ákveður Shug eldri að flytja með fjölskylduna í niðurnítt kolanámuhverfi fyrir utan borgina, þar sem nöturleikinn, slúður og biturð ræður ríkjum. Á svipuðum tíma er fólk byrjað að taka eftir því að Shuggie Bain yngri, þá sex ára, er ekki alveg nógu strákalegur, hann leikur sér með dúkkur og dillir mjöðmunum of mikið þegar hann gengur.

Skáldsögunni hefur verið líkt við skáldsögur hins franska Edouard Louis, en fyrsta skáldsagan hans fjallar einmitt um uppvöxt stelpulegs stráks í karllægu verkamannasamfélagi í Norður Frakklandi. Edouard Louis sagði í einhverju viðtalinu, að í samfélagi þar sem manneskjan getur aðeins selt verklega vinnu, eða líkama sinn, verður til ofuráhersla á líkamlegan styrk, og þaðan spretti kvenfyrirlitningin og hómófóbían.

En þó svo að umfjöllunarefni Shuggie Bain séu átakanleg; drykkja, hómófóbía, ofbeldi, fátækt og einelti, er mikil hlýja í bókinni. Þetta er löng bók og gjöful lesning, prósinn bæði vel og skemmtilega skrifaður. Sögumaðurinn er alvitur, og smeygir sér af lipurð milli persóna; við fáum að gægjast inn í huga allra fjölskyldumeðlimanna sitt á hvað, svo úr verður þéttofin heild af væntingum og vonbrigðum, hrifum og áhrifum, breyskleika og mennsku. Af þessum þremur bókum, var ég hrifnust af þessari – bókinni eftir hvíta karlinn.

Í næstu viku mun ég fjalla um seinni þrjár bækurnar af stuttlistanum, en það eru This Mournable Body eftir Tsitsi Dangarembga, The Shadow King eftir Maaza Mengiste og The New Wilderness eftir Diane Cook. Bless þangað til. 

 

Mynd: Gassi / Gassi

THIS MOURNABLE BODY, THE NEW WILDERNESS, SHADOW KING
Á fimmtudaginn næsta, þann 19. nóvember, kemur í ljós hvaða bók mun hljóta Man Booker verðlaunin, ein virtustu bókmenntaverðlaun í heimi. Í síðustu viku fjallaði ég um þrjár af þessum sex tilnefndu bókum sem skipa stuttlistann; það voru skáldsögurnar Real Life eftir Brandon Taylor, Burnt Sugar eftir Avni Doshi, og Shuggie Bain eftir Douglas Stuart. En seinni helmingurinn af stuttlistanum er enn óumfjallaður; það eru skáldsögurnar This Mournable Body eftir Tsitsi Dangarembga, The New Wilderness eftir Diane Cook, og The Shadow King eftir Maaza Mengiste.

This Mournable Body er þriðja skáldsaga simbabveska höfundarins Tsitsi Dangarembga og jafnframt sú þriðja sem fjallar um aðalkarakterinn Tambu. Fyrri bækurnar fjalla um uppvöxt og ungdóm þessarar konu sem nú er orðin fertug, en hún var svört stúlka frá fátæku þorpi; sem fékk það sjaldgæfa tækifæri að ganga menntaveginn. Síðar fékk hún starf sem vel launaður textahöfundur hjá auglýsingastofu í Harare, höfuðborg Zimbabwe. En hamingjan er ekki lengur Tambu hliðholl, í byrjun þessarar bókar hefur hún sagt starfi sínu lausu vegna þess að karlkyns kollegi eignaði sér verðlaunaverk hennar. Hún er ekki bara aftur komin á byrjunarreit, nei hún er búin að tapa í slönguspilinu; hún dvelur á hosteli fyrir ungar konur, endurtekur aftur og aftur að henni hafi mistekist að gera eitthvað úr sjálfri sér; hún er atvinnulaus, eignalaus og ógift, og sjálfsmynd hennar byggist fullkomlega á þessum þremur þáttum. Hún er full af heift og hatri bæði gagnvart sjálfri sér, og ungu konunum í hostelinu, sem enn hafa framtíðina fyrir sér. Hún er meinbægin og illgjörn, hún gleðst yfir óförum annarra, hún stelur og lýgur og drekkur og plottar hvernig hún geti stolið eiginmönnum annarra kvenna til að öðlast öryggi. Þegar hún loksins fær vinnu sem grunnskólakennari sýna unglingsstúlkurnar henni ekki tilheyrandi virðingu og að lokum springur Tambu og ræðst svo hrottalega á eina þeirra að stúlkan missir heyrnina. Eftir það brotnar Tambu fullkomlega niður og vaknar inni á geðdeild, umkringd fjölskyldumeðlimum og reynir að koma fótunum undir sig aftur með ýmsum leiðum. En það virðist bara vera ein leið til þess: að endurskoða vestræna lífsgæðakapphlaupið og sættast við eigin aðstæður.

Eins og til að undirstrika vonbrigði og sjálfsfyrirlitningu Tambu, er bókin sögð í annarri persónu, en fyrri bækur voru sagðar fyrstu persónu. Ég-ið er orðið Þú, eins og Tambu vilji halda sig í fjarlægð frá sjálfri sér. Textinn er gríðarlega vel stílaður, en bókin er krefjandi í lestri; frásögnin er oft tyrfin og Tambu er svo ósympatískur karakter að oftast langar manni ekki að vita meira. Í gegnum allan lesturinn líður manni samt eins og örlög henni geti ekki verið annað en ádeila á samfélagið sem hún tilheyrir, á kynþáttafordóma, kynjamisrétti og samband Afríku við hinn vestræna heim.

The New Wilderness eftir bandaríska höfundinn, Diane Cook, á sér stað í framtíðinni; mannkynið er búið að þjappa sér saman inni í einni borg. Mengunin er svo mikil að ungabörn ná ekki andanum, meirihluti þeirra kemst ekki lífs af. Skammt frá borginni eru svo síðustu óbyggðirnar í heiminum; stórt landsvæði sem er verndað frá mannkyninu; sléttur og skógar og fjöll og dalir þar sem villt dýr reika frjáls sinna ferða.

Þegar Beatrice horfir á þriggja ára dóttur sína hósta blóði, verða hún og maðurinn hennar Glen örvæntingarfull. Glen er háskólaprófessor og sérfræðingur í frummenningu; hvernig frumstæði maðurinn lifði áður í náttúrunni. Til þess að koma dóttur þeirra, Agnesi, út úr borginni setur hann á fót tilraunakennda rannsókn á vegum háskólans; að safna saman 20 sjálfboðaliðum til þess að flytja út í óbyggðirnar og gerast hirðingjar. Skilyrðin eru þessi: þau mega ekki eigna sér náttúruna, byggja eða setja sitt mark á hana, þau mega ekki gista á sama stað í meira en viku sem þýðir að þau þurfa að vera á sífelldu flakki. Ef þau skilja eftir sig rusl eða ummerki, ef þau veiða of mikið eða hæna dýrin að sér, verða þau sektuð af landvörðum og eiga í hættu að vera rekin aftur heim í borgina.

Í byrjun sögunnar hafa þau búið í óbyggðunum í fimm ár. Af tuttugu manna hópnum eru aðeins ellefu eftir á lífi og grimmd náttúrunnar hefur veðrað fólkið; það hefur lært á landslagið, að hlusta á það og lesa það, lært að veiða, að flá og sauma sér skinnklæði, það hefur lært að lifa af. Innan hópsins hefur skapast valdabarátta sem minnir óneitanlega á skáldsögu William Golding, Lord of the Flies. Hægt og rólega hlaðast vandamálin upp þegar ástandið í borginni versnar og fólk fer að flýja í óbyggðirnar.

Þematískt fjallar bókin annarsvegar um náttúrufirringu og loftslagsvána en hinsvegar hvað það er að vera móðir og hvað það er að vera dóttir og togstreituna milli þess að vera einstaklingur og bundinn annarri manneskju órjúfanlegum böndum. Þetta undirstrikar höfundurinn með því að skipta bókinni í tvennt; fyrri hlutinn er sagður af móðirinni Beatrice, en seinni hlutinn er sagður af dótturinni Agnesi.

Og síðast en ekki síst; á stuttlista Man Booker verðlaunanna er bókin The Shadow King eftir eþíópíska höfundinn, Maaza Mengiste. Árið er 1935; Eþíópía og Líbería eru einu löndin í Afríku sem evrópskir nýlenduherrar hafa ekki lagt undir sig. En Mussolini hefur ákveðið að hann vilji Eþíópíu sem nýlendu og er búinn að lýsa yfir stríði á hendur þjóðarinnar ef hún gefst ekki upp.

Hirut er munaðarlaus unglingsstúlka sem varð vinnuþræll á heimili herforingja neðar í götunni eftir að foreldrar hennar dóu. Herforinginn, Kidane, er að gera eins og hann getur til að gera bændastráka úr þorpinu að hermönnum og safna saman gömlum rifflum fyrir yfirvofandi stríð. Útlitið er ekki gott, Mussolini er þegar lagður af stað með þúsundir hermanna, flugvélar, skriðdreka og glænýjar byssur.

Aster, eiginkona Kidane, fyllist eldmóði þegar hún misskilur ítalska blaðaúrklippu; í stað þess að sjá konu syngja fyrir ítalska hermenn, sér hún konu öskra á ítalska hermenn eins og herforingi, og ríður út til þess að safna saman í kvenkyns herlið. Kidane hinsvegar harðneitar og skipar konunum að sjá um mat, birgðir og sjúkra særðum hermönnum, þegar stríðið skellur á, sem þær gera, Aster og Hirut í fararbroddi. En smátt og smátt fer að fjúka í flest skjól; ítalski herinn yfirtekur hverja borgina á fætur annarri, eþíópíski keisarinn flýr land og í kjölfarið verður Hirut lífvörður nokkurs konar gervikonungs, sem er í rauninni bara tvífari hins huglausa keisara. Gervikonungurinn, eða The Shadow King sem titill bókarinnar vísar í, hefur það hlutverk að hræða óvininn og blása lífi í baráttuna.

Bókin er dásamlega vel skrifuð, hinir alvitru sögumenn bókarinnar eru þeir dauðu og brjótast stundum fram á blaðsíðunni í fyrstu persónu fleirtölu; en þræðirnir eru fleiri og frásögnin hefur margar raddir; við sjáum stríðið sitt á hvað út frá augum Hirut, Aster og Kidane, út frá eþíópíska keisaranum Haile Selassie (Hælí Selassí), ítalska ljósmyndaranum Ettore og ítalska herforingjanum Fucelli. Ég held reyndar, að þessi bók muni vinna Man Bookerinn í ár. Ef svo er, fæ ég að fara betur í saumana á henni í næstu viku, en þá munum við kafa almennilega ofan í sigurverkið. Bless þangað til.

 

jorunns's picture
Jórunn Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður