Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lagasetning á verkfall til skoðunar

Mynd: RÚV / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir lagasetningu á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni vera til skoðunar. Tryggja verði öryggi almennings og sjófarenda.

Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni hafa verið í verkfalli frá 5. þessa mánaðar. Nýr samningafundur hefur ekki verið boðaður, en ríkissáttasemjari er í sambandi við deilendur. Dómsmálaráðherra hefur áhyggjur af stöðunni, enda hefur Gæslan varað við því að ef fram heldur sem horfir verði þyrlan jafnvel ekki tiltæk.

„Hún er auðvitað bara grafalvarleg. Þeim hefur verið boðið launahækkanir í takt við aðrar hækkanir opinberra starfsmanna og það má auðvitað aldrei vera þannig að ein stétt geti teflt í tvísýnu öryggi almennings og sjófarenda,“ segir Áslaug Arna. 

Eftir því sem næst verður komist stranda viðræðurnar ekki á launaliðnum heldur atriðum sem hafa tengingu við kjarasamning flugvirkja hjá Icelandair. Ráðherra telur óeðlilegt að kjarasamningur opinberra starfsmanna sé tengdur við fyrirtæki á markaði, þetta sé ólíkur rekstur og þjóni ekki hagsmunum Landhelgisgæslunnar, en hlutverk hennar sé að tryggja öryggi.

Þessi tenging við Icelandair, er það eðlileg tenging að þínu mati?

Nei, það er ekki eðlileg tenging að mínu mati að það séu kjarasamningar hjá opinberum starfsmönnum sem eru tengdir við einkafyrirtæki á markaði. Og auk þess er auðvitað hlutverk Icelandair og Landhelgisgæslunnar gjörólíkt og það fer ekki með hagsmunum Landhelgisgæslunnar að hafa þessa tengingu.

Nú hefur Gæslan lýst því yfir að það sé mjög stutt í alvarlegt ástand, að þyrlan verði jafnvel ekki tiltæk.

Já, það er mitt hlutverk að gæta þess að það sé öryggi, hvort sem er á sjó eða landi og Landhelgisgæslan hefur mjög mikilvægt öryggishlutverk og það þarf að tryggja það með öllum mætti. 

Kemur til greina að setja lög á þetta verkfall?

Það er auðvitað ein af leiðunum. Það þarf fyrst og fremst að tryggja þetta öryggi, almennings og sjófarenda, og ég mun leita einhverra leiða til þess.

Er lagasetning til skoðunar?

Já, að sjálfsögðu munum við skoða þá leið.

Hvað gefurðu því langan tíma, að það verði samið, áður en gripið verður til lagasetningar?

Maður bindur auðvitað vonir við að það sé samið. Hér er verið að bjóða svipaðar launahækkanir og öðrum og að þessi tenging sé orðin úrelt og barn síns tíma.

Kæmi til greina að setja lög fyrir miðja næstu viku?

Hver dagur skiptir máli og við skoðum þetta með alvarlegum augum.