Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hamfarir af völdum loftslagsbreytinga 35% tíðari

20.11.2020 - 19:25
Í El Campin í Hondúras eftir að fellibylurinn Eta fór þar yfir í byrjun nóvember. - Mynd: EPA / EPA
Hamfarir af völdum loftslagsbreytinga hafa aukist um 35 prósent síðustu þrjá áratugi. Áhrifin eru mest í fátækustu ríkjum heims. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóða Rauða krossins.

Sjá einnig: Gríðarlegt tjón af völdum fellibylsins Iota

„Athyglisverðustu niðurstöðurnar eru þær, sem við reyndar vissum fyrir, að hamfarir af völdum loftslagsbreytinga eru að aukast og að hamfarir fara ekki í frí þó að það geisi heimsfaraldur á borð við COVID, og að ef ekkert er að gert, þá mun ástandið bara versna, segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi.

Ekki of seint að bregðast við

Skýrslan var gefin út í vikunni. Í henni er tíðni hamfara á ólíkum tímum borin saman. „Og þá kemur í ljós að á síðustu þrjátíu árum hafa hamfarir af völdum loftslagsbreytinga aukist um þriðjung, og það sem að skýrslan gerir líka er að hún horfir til framtíðar og hún svolítið spáir fyrir um hvernig aðstæður verða ef að við höldum áfram á þessari sömu braut, að menga heiminn og að loftslagsbreytingar ýti undir hamfarir, og þá er ástandið nokkuð dökkt. En það er líka tekið fram að það er ennþá tími til að bregðast við og það er hægt,“ segir Atli Viðar. 

80% hamfara vegna öfga í veðri

Á síðustu tíu árum hafa rúmlega 80 prósent allra náttúruhamfara verið vegna öfga í veðri, til dæmis flóð, stormar og hitabylgjur. Á þessu ári hafa orðið náttúruhamfarir hundrað sinnum, sem hafa haft áhrif á líf fimmtíu milljóna manna. Nú síðast fellibylurinn Iota sem olli mannfalli og mikilli eyðileggingu í Mið-Ameríku í vikunni. Síðustu tíu ár hafa 410.000 manns farist í náttúruhamförum í heiminum. Flestir farast í stormum. 

Mynd með færslu
Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins.  Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Fátæk ríki bera þyngstu byrðarnar

Í skýrslunni segir að fátækustu ríkin verði hvað verst fyrir barðinu á náttúruhamförum. Oft séu aðstæður slæmar fyrir, samfélög stríðshrjáð og fólk þegar búið að lenda í miklum áföllum. Atli segir að fátæk ríki, sem eigi minnsta sök á því hvernig komið sé í loftslagsmálum, beri þyngstu byrðarnar. Innan fátækra samfélaga geti verið misskipting, líkt og annars staðar, og að fátækustu samfélögin innan fátækra landa, beri langþyngstu byrðarnar. 

Þá segir Atli Viðar að það borgi sig að búa fátæk samfélög undir hamfarir. Viðbrögðin, hafi ekkert verið gert áður, séu mun kostnaðarsamari. „Það heyrir undir okkur öll sem byggjum þessa jörð að taka til í okkar eigin neysluvenjum,“ segir hann. Þá beri stjórnvöld mikla ábyrgð og stýri, upp að ákveðnu marki, hvernig neysluvenjum sé háttað. Brýnt sé, þegar faraldrinum lýkur, að byggja upp grænar, sjálfbærar lausnir. „Það er svolítið leiðin að því að gera ástandið ekki verra, og svo þarf að vinda til baka þessum breytingum sem eru að verða af völdum loftslagsbreytinga þannig að við náum að draga úr hamförum og tíðni þeirra.“