Sjá einnig: Gríðarlegt tjón af völdum fellibylsins Iota
„Athyglisverðustu niðurstöðurnar eru þær, sem við reyndar vissum fyrir, að hamfarir af völdum loftslagsbreytinga eru að aukast og að hamfarir fara ekki í frí þó að það geisi heimsfaraldur á borð við COVID, og að ef ekkert er að gert, þá mun ástandið bara versna, segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi.
Ekki of seint að bregðast við
Skýrslan var gefin út í vikunni. Í henni er tíðni hamfara á ólíkum tímum borin saman. „Og þá kemur í ljós að á síðustu þrjátíu árum hafa hamfarir af völdum loftslagsbreytinga aukist um þriðjung, og það sem að skýrslan gerir líka er að hún horfir til framtíðar og hún svolítið spáir fyrir um hvernig aðstæður verða ef að við höldum áfram á þessari sömu braut, að menga heiminn og að loftslagsbreytingar ýti undir hamfarir, og þá er ástandið nokkuð dökkt. En það er líka tekið fram að það er ennþá tími til að bregðast við og það er hægt,“ segir Atli Viðar.
80% hamfara vegna öfga í veðri
Á síðustu tíu árum hafa rúmlega 80 prósent allra náttúruhamfara verið vegna öfga í veðri, til dæmis flóð, stormar og hitabylgjur. Á þessu ári hafa orðið náttúruhamfarir hundrað sinnum, sem hafa haft áhrif á líf fimmtíu milljóna manna. Nú síðast fellibylurinn Iota sem olli mannfalli og mikilli eyðileggingu í Mið-Ameríku í vikunni. Síðustu tíu ár hafa 410.000 manns farist í náttúruhamförum í heiminum. Flestir farast í stormum.