Anthony Fauci helsti smitsjúkdómasérfræðingur Bandaríkjanna segir óháðar prófanir sýna að tvö ný bóluefni gegn kórónuveirunni séu traust. Hann tilkynnti þetta fyrr í dag.
Efnin voru þróuð hjá Pfizer og BioNTech annars vegar og hins vegar hjá bandaríska lyfjaþróunarfyritækinu Moderna.
Fauci segir að þrátt fyrir þann skamma tíma sem þróun efnanna hefur tekið hafi hvergi verið slegið af í öryggiskröfum og vísindalegum aðferðum.
Sömuleiðis lagði hann ríka áherslu á að prófanirnar hafi verið gerðar af óháðum rannsóknarstofum án nokkurs þrýsting stjórnmála- eða embættismanna.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða nú yfirfarnar af Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna en BioNTech hyggst sækja um neyðarleyfi til notkunar bóluefnis þess fyrir vikulok.