Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dæmt í Landsréttarmálinu á fullveldisdaginn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu kveður upp dóm sinn í Landsréttarmálinu á fullveldisdaginn, 1. desember. Þetta kemur fram í bréfi sem dómstóllinn sendi málsaðilum. Mannréttindadómstóllinn dæmdi í mars 2019 að íslenska ríkið hefði brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu við skipan dómara í Landsrétt.

Málið á upphaf sitt í kæru manns gegn Íslandi á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu. Maðurinn var í janúar 2017 ákærður fyrir brot gegn umferðarlögum með því að aka án þess að hafa gilt ökuleyfi og undir áhrifum fíkniefna. Hann var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í 17 mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt. 

Maðurinn áfrýjaði málinu. Lögmaður mannsins gerði athugasemd við það að einn af þeim sem dæma átti í málinu í Landsrétti væri einn þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru við Landsrétt þar sem dómsmálaráðherra vék frá tillögu dómnefndar.

Lögmaðurinn fór jafnframt fram á að dómarinn segði sig frá málinu. Var því hafnað og bæði Landsréttur og Hæstiréttur staðfestu dóminn yfir manninum. Hann kærði þá málið til Mannréttindadómstóls Evrópu og taldi að dómurinn yfir honum hefði ekki verið kveðinn upp af sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli sem skipaður væri að lögum og að það væri brot gegn Mannréttindasáttmála Evrópu. 

Dómstóllinn dæmdi manninum í hag í mars í fyrra og var íslenska ríkið dæmst til að greiða um tvær milljónir króna í málskostnað. Íslensk stjórnvöld áfrýjuðu niðurstöðunni til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins sem ákvað í september í fyrra að taka málið fyrir. Dómsuppsaga verður svo á fullveldisdaginn.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV