Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vinsældir ESB aldrei meiri í Bretlandi

19.11.2020 - 19:30
epa08178728 An anti-Brexit demonstrator holds British-European flags in front of the European Parliament to express their dissatisfaction at Luxembourg place in Brussels, Belgium, 30 January 2020. Britain's withdrawal from the EU is set for midnight CET on 31 January 2020, as the Withdrawal Agreement was approved by the European Parliament on 29 January evening.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA
Vinsældir Evrópusambandsins hafa aukist í kórónuveirufaraldrinum samkvæmt nýrri könnun á vegum Pew Research Center. Bretar, sem hafa formlega yfirgefið ESB, hafa aldrei verið ánægðari með sambandið.

Könnunin var gerð í sumar á meðal íbúa í níu ríkjum í suður- og vestur-Evrópu; Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Danmörku, Spáni, Frakklandi, Svíþjóð og Belgíu. Meirihluti íbúa í öllum þessum ríkjum er jákvæður í garð ESB samkvæmt könnunni. 

Enn bið á framtíðarsamningi

Mest er ánægjan í Þýskalandi, þar eru 73% íbúa jákvæðir í garð ESB. Minnst ánægja er hjá Ítölum af þessum ríkjum þar sem 58% eru jákvæð gagnvart sambandinu. Athygli vekur að í Bretlandi eru 60% íbúa jákvæðir í garð Evrópusambandsins og hefur það hlutfall aldrei verið hærra, samkvæmt Pew Research Center. 

Bretar yfirgáfu ESB formlega í lok janúar á þessu ári en eru hluti af innri markaði og tollabandalagi sambandsins fram að áramótum. Enn hefur ekki tekist að semja um framtíðarsamband ESB og Bretlands eftir þann tíma. Á meðal helstu ágreiningsefna sem enn standa út af borðinu eru fiskveiðar og samkeppnisreglur. Í dag þurfti að fresta samningaviðræðum sökum þess að COVID-19 smit greindist hjá samninganefnd ESB í Brexit-málum.