Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vilja heimila bændum að skjóta álftir í túnum sínum

19.11.2020 - 08:17
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Þingflokksformaður Framsóknar ásamt tveimur þingmönnum flokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að bændum verði heimilað að veiða álftir í því skyni að vernda ræktarland sitt auk þess sem leyft verði að veiða gæsir utan hefðbundins veiðitíma til að verjast ágangi þeirra.

Samkvæmt tillögunni er umhverfisráðherra falið að útbúa tillögur um heimildir til veiða á álftum og gæsum utan hefðbundins veiðitímabils. Samkvæmt lögum er óheimilt að veiða álftir þar sem þær eru friðaðar.
Leyfin verði veitt á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs fugla á tún og kornakra. Ráðherra geri jafnframt áætlun um að tryggja vernd stofnanna.

Þórunn Egilsdóttir, flutningsmaður tillögunnar segir að tillagan sé fyrst og fremst tilkomin til að bregðast við ágangi álfta og varast tjóni á ræktarlandi bænda. Vega og meta þurfi í hvert skipti hversu brýn nauðsyn er til veiðanna því tryggja þurfi vernd stofanna.

„Aðferðirnar sem hafa verið notaðar hafa ekki duga, það er með sjónrænum og hljóðrænum hætti. Það hefur bara virkað tímabundið og ekki dugað til. Ég vona að það sé hægt að finna leiðir til að stemma stigum við þessu eins og hægt er án þess að valda tjóni á stofnunum.“ segir Þórunn.

Hún segir að útfærsla og eftirlit með veiðunum hljóti að verða á könnu Umhverfisstofnunnar, Náttúrufræðistofnunar, Bændasamtaka Íslands ásamt Umhverfisráðuneytinu. Á þeim vettvangi hafi undanfarið verið teknar saman upplýsingar um umfang og tjón af völdum álfta og gæsa í ræktarlandi. Búið er að leggja tillöguna fram en ekki hefur verið mælt fyrir henni. Þórunn býst við því að stuðningur sé í þinginu fyrir tillögunni.

„Ég held að þeir sem þekkja málið og þekkja til hjá bændum þeir átta sig alveg á þessu. Bændur hafa rætt um þessi mál opinskátt. Það þarf að finna leiðir svo ég reikna ekki með öðru en að þingheimur vilji standa með íslenskum bændum. Um leið og við erum líka að sinna náttúruvernd og vernda stofana okkar“ segir Þórunn. 

Hún segir að í nágrannalöndunum sé vandamálið einnig til staðar. Ýmsar aðferðir hafi verið kannaðar, svo sem með fælum sem gefa frá sér hljóð og einnig sjónrænar fælur. Þær hafi aðeins virkað tímabundið. Því hafi hóflegar veiðar orðið ofan á.

Álftir og gæsir sækja frekar í tún sem eru í góðri rækt en lélegri. Þær eiga auðvelt með að greina fóðurgildi gróðurs og velja sér bithaga eftir því. Álftir þurfa að éta um 300 gr. á dag af þurrefni. Þrátt fyrir að álftin sé alfriðuð þá hefur líklega eitthvað verið um að hún sé skotin ólöglega þar sem hún er talin valda skemmdum á túnum og í kornrækt. Ungfuglar safnast oft í stórum hópum í nýrækt og á kornökrum. Um 1960 var stofninn um 3–5 þúsund fuglar en í dag er talið að stofninn sé um 34.000 fuglar.