
Upplýsingaóreiða um bóluefni byggist á misskilningi
Skopmynd sem birtist í Morgunblaðinu í dag hefur verið gagnrýnd af vísindafólki, meðal annars í hópnum Vísindi í íslenskum fjölmiðlum á Facebook. Á myndinni er barn sem hefur vaxið skegg og er með rófu sem er rafmagnssnúra. Þá ber barnið hálsmen með letrinu GMO sem stendur fyrir hugtakið erfðabreyttar lífverur (e. genetically modified organism). Með þessu er verið að gefa í skyn að bóluefnin geti breytt erfðaefni mannsins.
„Það þarf ekki sérfræðing til að vita að þetta er rangt,“ segir Jón Magnús Jóhannesson, sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala, sem hefur haldið utan um fróðleik og vísindi tengd COVID-19 á Vísindavef Háskóla Íslands.
Bandarísku lyfjafyrirtækin Pfizer og Moderna hafa kynnt niðurstöður fyrir bóluefni sín sem bæði virðast veita vörn gegn sjúkdómnum COVID-19 í yfir 90% tilfella. Þau nýta bæði svokallaða mRNA-tækni, sem er tiltölulega nýstárleg. Í umræðu um virkni þessara bóluefna hefur stundum verið rætt um að frumur séu forritaðar. Þaðan kemur misskilningurinn, telur Jón Magnús. „Þessi tvö bóluefni sem eru framarlega eru í raun litlar „fitukúlur“, og inni í kúlunni eru leiðbeiningar sem gera frumunum okkar kleift að búa til prótein sem er verndandi og býr til ónæmissvar. Leiðbeiningarnar breyta ekki frumum og hafa engin áhrif á okkar eigið erfðaefni. Þær virka aðeins sem efniviður til þess að búa til prótein tímabundið,“ segir Jón Magnús og leggur mikla áherslu á orðið tímabundið, bóluefnið muni ekki breyta okkur til frambúðar heldur hrörna og hverfa úr líkamanum líkt og önnur bóluefni. Það sem situr eftir er ónæmissvarið gegn próteininu.
Fleira sem stenst ekki skoðun
Þá er því haldið fram í textanum sem fylgir myndinni sem Morgunblaðið birtir að til standi að samþykkja „svo til óprófað bóluefni á tilraunastigi.“ Öll bóluefni eru á tilraunastigi, þar til þau eru samþykkt. Þá standast fullyrðingar, um að bóluefni gegn COVID-19 séu svo til óprófuð, ekki skoðun. „Þetta eru vel prófuð bóluefni,“ segir Jón Magnús. Hann bendir á að tilraunaferlið fyrir þessi bóluefni sé mjög gegnsætt, jafnvel gegnsærra en nokkru sinni fyrr. „Þetta er mjög vel rannsakað, mjög ítarlegt og mjög gegnsætt ferli.“
Vonir standa til að bóluefni Pfizer og Moderna verði tilbúin til notkunar innan örfárra mánaða. Gangi það eftir verður það heimsmet í tíma á þróun bóluefnis. Það hversu stuttan tíma það hefur tekið að komast á þetta stig í þróun bóluefnis við COVID-19 er ein ástæða þess að upp hafa sprottið vangaveltur og jafnvel samsæriskenningar. Jón Magnús segir að það hafi enginn afsláttur verið gefinn af rannsóknum og öryggi og bendir á að vanalega séu fjárhagslegar ástæður fyrir því hversu langan tíma ferlið tekur. „Það þarf að sýna fram á að fyrirtækin eigi eftir hagnast á því að leggjast í svo viðamiklar rannsóknir.“
More on vaccines. I'm going to get boring and geeky on this (no apologies) on the 10 year thing. Vaccines "normally take 10 years". This is being use as a reason to be fearful (ie rushed job). I'm a clinical trials doc. I can tell you most of that time is spent doing...1/n
— Mark Toshner (@mark_toshner) November 17, 2020
Það er hins vegar ekki vandamál nú. Þá hafa fyrirtækin ekki þurft að eyða miklum tíma í sækja um styrki til að fjármagna rannsóknir sínar. Í Facebook-hópnum Vísindi í íslenskum fjölmiðlum bendir Jóhanna Jakobsdóttir, rannsóknarsérfræðingur á heilbrigðisvísindasviði í Háskóla Íslands og líftölfræðingur, á þráð á Twitter þar sem Mark Toshner, vísindamaður við Cambridge-háskóla á Englandi, fer yfir það hvers vegna yfirleitt hafi tekið um 10 ár að þróa bóluefni. Toshner skrifar meðal annars: „Ég get sagt ykkur að mestur tími fer í að gera ekki neitt. Senda umsóknir um fjárveitingu, senda þær aftur, sækja um á öðrum stað.“
Fjölmörg fyrirtæki, einstaklingar og ríki í heiminum hafa lagt til gríðarlegt fjármagn svo hægt sé að flýta þróun bóluefnis gegn COVID-19 eins og kostur er enda hafa afleiðingar heimsfaraldursins verið miklar og alvarlegar fyrir flestar þjóðir heims. Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér aðgang að bóluefni Pfizer en samningaviðræður standa yfir milli Moderna og Evrópusambandsins. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist á upplýsingafundi Almannavarna í dag binda vonir við að hægt yrði að hefja bólusetningu á fyrri hluta næsta árs. Hann varaði þó við of mikilli bjartsýni og sagði að á þessari stundu væri ekkert bóluefni fast í hendi þótt niðurstöður lofuðu góðu og væru ánægjulegar.