Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tólf mánaða fæðingarorlof ef frumvarpið verður að lögum

19.11.2020 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur eftir áramót eiga rétt á tólf mánaða samanlögðu fæðingarorlofi, ef frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, nær fram að ganga. Frumvarpið hefur verið lagt frá á Alþingi.

Hér er á ferðinni heildarendurskoðun á gildandi lögum um fæðingarorlof frá árinu 2000. Byggir það á vinnu samstarfshóps sem var falið það verkefni haustið 2019.

Helstu nýmæli eru að foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar skuli eiga rétt á tólf mánaða samanlögðu fæðingarorlofi og um skiptingu þess milli foreldra sem og um lengingu á rétti til fæðingarstyrks í tólf mánuði.

Þetta er lenging úr tíu mánuðum og er lagt til að rétturinn skiptist þannig milli foreldra að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verði sex mánuðir en að hvort foreldri um sig geti framselt einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.