Svartur markaður með „kolólöglegt“ ljúfmeti

Svartur markaður með „kolólöglegt“ ljúfmeti

19.11.2020 - 20:50

Höfundar

Talsmaður Landssambands bakarameistara segir kolólöglegt að selja sörur á netinu ef tilskilin leyfi eru ekki til staðar. Svartur markaður með sörur hefur myndast fyrir jólin - vegna þess hvað þær eru góðar að margra mati.

Nokkur styrr hefur staðið um eitt vinsælasta jólabakkelsi þjóðarinnar undanfarna daga, eftir að vakin var athygli á því að bakarameistarar hefðu einir réttindi til að selja Söru Bernhardt-kökur. Sörurnar njóta mikilla vinsælda, en það er ekki fyrir neina aukvisa að útbúa þær. Fyrst þarf að baka stökkar möndlumakkarónur, sem síðan eru smurðar með smjörkremi og loks dýft í hjúpsúkkulaði. 

Ástríður Guðmundsdóttir hefur verið kölluð móðir sörunnar á Íslandi. Hún bakaði smákökutegundina fyrst hér á landi en hún rakst á uppskriftina í sænsku blaði árið 1979.

„Og ég bætti í, þegar ég fór að gera kremið, þá bætti ég við kaffidufti. En þetta tókst alveg ofboðslega vel hjá mér þarna í fyrsta skipti rétt fyrir jólin '79,“ rifjar hún upp.

Kremið eins og Skjaldbreiður

Ástríður deildi uppskriftinni með starfsfólki Melaskóla, þar sem hún var kennari, og birti hana síðar í Gestgjafanum. Þá var ekki aftur snúið og vinsældirnar urðu gríðarlegar: „Það var alveg hringt í mig að norðan, einhverjar konur sem ég þekkti ekki neitt og voru að spyrja mig því það var eitthvað að klikka hjá þeim. Það fannst mér svolítið skemmtilegt.“ 

Ástríður segir að vanda þurfi til verka við baksturinn. Miklu máli skipti að mala möndlurnar, velja þarf súkkulaðitegundina af kostgæfni og kremið skal smurt á eftir kúnstarinnar reglum: „Þegar maður smyr kreminu á þá þarf þetta að vera pínulítið eins og Skjaldbreiður með toppinn upp í miðjunni. Ekki svona hlussulegt.“

Hengja bakara fyrir smið

Svo vinsælar eru sörurnar að fjöldi fólks aflar sér tekna með að baka þær og selja á netinu fyrir jólin ár hvert.

„Lögum samkvæmt er þetta náttúrulega bara kolólöglegt,“ segir Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri hjá Samtökum iðnaðarins og tengiliður við Landssamtök Bakarameistara. „Því miður. Þú mátt baka heima hjá þér í góðgerðaskyni eða í fjáröflunarskyni, þá er það heimilt. Það er reglugerð fyrir því og það eru leikreglurnar í okkar samfélagi. En um leið og þú ert farinn að stunda bakstur eða annað slíkt í hagnaðarskyni þá situr þú við sama borð og aðrir og þar af leiðandi við sama borð og bakarinn.“

Fólk þarf að hafa tilskilin réttindi til að selja handiðnað, greiða skatta og önnur gjöld og heilbrigðisyfirvöld þurfa að hafa eftirlit með framleiðslunni. Gunnar segir stjórnvöld setja þessar reglur og því sé ekki rétt að gagnrýna Landssamband bakarameistara.

„Það er mjög leiðinlegt að það sé verið að pínu hengja bakara fyrir smið í þessu máli því að Landssambandið er ekkert í einhverju svartstakkameðferð í því að fara að draga fram hina og þessa sem eru að baka sörur,“ segir Gunnar.

Þær heimagerðu betri

Ástríður segist skilja sjónarmið stjórnvalda.

„Auðvitað tekur fólk áhættu þegar það kaupir af einhverjum svona út í bæ. Þú veist ekkert hvernig er heima hjá því,“ segir hún. 

En telurðu að þeir sem eru lunknir við að gera sörur og vantar kannski smá auka fjármagn ættu bara að halda þessu  áfram?

„Mér finnst það allt í lagi en þú átt náttúrulega ekki að auglýsa það,“ segir Ástríður og kímir. Hún fullyrðir að heimabökuðu sörurnar séu einfaldlega betri en þær sem fást í bakaríum.

„Þeir gera þær margir svo stórar. Mann langar ekkert í það,“ segir Ástríður að lokum.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Hætta á að kröfur minnki verði farið að ráðum OECD

Neytendamál

Gerir ráð fyrir að lögvernduðum starfsheitum fækki

Neytendamál

Bakarar gagnrýna tillögur OECD