Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir bóluefnin lofa góðu en ekkert fast í hendi

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bindur vonir við að hægt verði að hefja bólusetningu á fyrri hluta næsta árs. Hann varar þó við of mikilli bjartsýni og segir að á þessari stundu sé ekkert bóluefni fast í hendi þótt niðurstöður tveggja lyfjaframleiðenda hafi lofað góðu og séu ánægjulegar. Undirbúningi embættisins verði lokið fyrir áramót „og ef það kemur mikið bóluefni gerum við þetta hratt en annars verðum að bíða lengur og forgangsraða.“

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna. Fjögur ný innanlandssmit greindust í gær, tveir af þeim smituðu voru ekki í sóttkví. 

Bandarísku lyfjafyrirtækin Pfizer og Moderna hafa kynnt niðurstöður fyrir bóluefni sín. Þau virðast bæði veita 95 prósenta vörn þótt þau séu ólík og er búist við að framleiðendurnir sæki um neyðarleyfi hjá bandarísku lyfjastofnuninni á næstu dögum. Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér aðgang að bóluefni frá Pfizer en samningaviðræður milli Moderna og Evrópusambandsins standa yfir. Gangi þær eftir fær Ísland einnig aðgang að því bóluefni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lýsti á fundinum yfir ánægju með niðurstöðu skoðanakönnunar þar sem 90 prósent landsmanna voru jákvæð gagnvart bólusetningu. Það væri bólusetning sem kæmi okkur út úr faraldrinum. „Höldum þetta út og stöndum saman, höldum faraldrinum niðri þar til gott bóluefni fæst,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði að sóttvarnalæknir bæri ábyrgð á því hvernig forgangsröðun yrði háttað. Verið væri að skipuleggja það en hann væri ekki reiðubúinn að tala um einstaka hópa. Ef aðgengi að bólefni verði takmarkað geti eflaust orðið núningur milli einstakra starfsstétta, „og við verðum bara að taka á því þegar þar að kemur.“

Þórólfur sagði að undirbúningur fyrir bólusetningu væri hafinn. Sóttvarnalæknir tekur á móti bóluefninu og dreifir því. Heilsugæslan kemur til mað að bólusetja flesta en stóru sjúkrahúsin sitt starfsfólk. Undirbúningi yrði lokið fyrir áramót. „Þannig að ef við fáum mikið bóluefni gerum við þetta hratt en annars verðum við að bíða lengur.“

Það velti síðan á nokkrum atriðum hvort bólusetning verður til þess að takmörkunum verður aflétt hratt. „Í fyrsta lagi hvernig staðan á faraldrinum verður, svo hversu gott bóluefnið er og loks hversu margir vilja fara í bólusetningu. Ef við náum hjarðónæmi, sem er á bilinu sextíu til sjötíu prósent, verður hægt að aflétta mörgu mjög hratt ef við fáum gott bóluefni.“ 

Þegar bóluefnið kæmi væru því allar forsendur til að slaka á. „En það væri alveg skelfilegt að vera með faraldur í fullum gangi þegar bóluefnið kemur.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV