Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Misstu hús sitt í eldsvoða sem kviknaði út frá raftæki

19.11.2020 - 09:30
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Hjónin Guðrún María Björnsdóttir og Jóhann Páll Þorkelsson eru bændur á Snartarstöðum í Lundarreykjadal í Borgarfirði á Vesturlandi. Þau misstu heimili sitt í byrjun júní á þessu ári þegar eldur braust út á efri hæð íbúðarhússins á bænum . Eldurinn kviknaði út frá gamalli spjaldtölvu sem var í hleðslu. Þau hafa orðið að búa í garðkofa með börnin sín þrjú síðan þá með eldunaraðstöðu í gámi á hlaðinu. Þau vonast til að geta loks flutt í nýtt hús á næstunni.

Hundurinn vakti þau 

Eldsvoðinn varð aðfaranótt annars júní á þessu ári. Guðrún María segist hafa vaknað um fimm að morgni við gelt í tík á heimilinu sem var inni í forstofu hússins með hvolpa.  

„Hún geltir alveg eins og brjálæðingur. Hún er svo sem svolítið furðuleg en er ekki vön að láta svoleiðis.“ segir Guðrún María sem varð vör við mikla reykjarlykt þegar hún fór að gá að hundinum.  

„Ég fer upp því ég sá bara reyk koma af efri hæðinni. Þá sé ég reyk koma út úr svefnherberginu hjá eldri stelpunni okkar. En hún var sem betur fer í kofanum úti hjá ömmu sinni. Yngri stelpan, hún átti líka herbergi uppi en af því hún fór í fýlu yfir að fá ekki að gista í kofanum með eldri systur sinni og ömmu fór hún í fýlu og sofnaði í rúminu okkar niðri. “ 

Það var því fyrir tilviljun að dætur hjónanna sluppu við eldinn.  

„Svo fer ég upp á efri hæðina þegar við erum búin að koma krökkunum út til að athuga hvort hægt sé að komast fyrir þetta með slökkvitæki,“ segir Jóhann. Fljótt varð þó ljóst að það stoðaði lítið og að liðsinni slökkviliðs þyrfti til.  

„Tíkin kemst upp með ýmislegt því hún vakti okkur nú. Ég veit ekki hvernig þetta hefði farið ef hún hefði ekki vakið okkur. Ég varð aldrei vör við reykskynjara. Það var samt reykskynjari uppi, en ég veit ekki hvort hann hafi verið bilaður,“ segir Guðrún María. 

Tók tíma sinn að fá húsið bætt 

Slökkvistarf stóð í langan tíma og húsið gjöreyðilagðist í eldinum. Íbúðarhúsið var frá sjötta áratugnum og hlaðið úr holsteini. Hjónin lýsa því að efri hæðin hafi brunnið að megninu til. Guðrún María segir að sú neðri hafi hins vegar skemmst af reyk og sót frá eldinum og raka frá slökkvistarfinu.  

„Til að byrja með vildu tryggingarnar fá það í gegn að við rifum allt nema holsteininn og byggðum á hann aftur. En það sem gerist þegar það kviknar í er að það lekur inn á milli, þegar þeir eru að slökkva, í holsteininn. Ég hugsa að við hefðum aldrei losnað við lyktina úr húsinu.“ 

Það mátti ekki rífa húsið í meira en mánuð eftir brunann á meðan þrætt var við tryggingarnar. Að endingu fékkst það viðurkennt að húsið væri vissulega ónýtt og að það mætti rífa það til að byggja nýtt.  

„Bara það að fá leyfi til að rífa húsið en ekki vera skyldug til að byggja það aftur hjálpaði okkur mikið. Það hefði aldrei verið hægt að búa með börnin í þessari reykjarlykt. Við hefðum líka aldrei boðið þeim upp á það. Ég veit ekki hvað maður hefði gert þá.“ 

Fimm manna fjölskylda í fimmtán fermetra garðkofa 

Síðan eldsvoðinn varð hefur fjölskyldan búið í fimmtán fermetra garðkofa. Eldunaraðstaða er í gámi sem stendur á hlaðinu og þau þurfa að fara til nágrannans til að komast á salerni. Nú eygir fjölskyldan það að geta flutt inn í sitt nýja heimili. 

„Það er nú allt að verða betra en þessar vistarverur sem við erum í,“ segir Jóhann. Hann bætir því þó við að tíðin hafi hjálpað mikið. Hlýtt hafi verið í veðri langt fram eftir hausti.  

Þau segja þessa reynslu hafa fyrst og fremst kennt þeim að sýna ekki kæruleysi með brunamál. Grundvallaratriði sé að allir reykskynjarar virki og að slökkvitæki séu í góðu lagi. Eins ætli þau sér að eiga samtal við börnin sín um hvernig skal bregðast við ef eldur kviknar.  

Þau þakka fyrir að dæturnar hafi ekki verið í herbergjunum sínum þessa nóttina. 

„Ef þetta gerist, hvað ætlarðu að gera? Til dæmis ef þær hefðu verið á efri hæðinni, ég fór að hugsa um það eftir á. Þá er bara á einum stað hægt að komast út annars staðar en niður stigann. Það herbergi varð mjög fljótt alelda og þá hefði þurft að komast inn einhvern veginn öðruvísi,“ segir Guðrún María.  

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir ræddi við Guðrúnu Maríu Björnsdóttur og Jóhann Pál Þorkelsson í Sögum af landi á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir