Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leggur til tímabundna lækkun tryggingagjalds

19.11.2020 - 17:48
Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælti nú síðdegis fyrir frumvarpi sínu um skatta og gjöld en meðal þess sem það felur í sér er tímabundin lækkun tryggingagjalds á næsta ári. Mun þannig almenna tryggingagjaldið lækka úr 4,9 prósentum í 4,65 prósent til að milda áhrifin af launahækkunum sem samið var um í lífskjarasamningnum.

Tekjur ríkissjóðs dragast saman sem nemur fjórum milljörðum króna á næsta ári vegna þessarar tímabundnu lækkunar, sagði ráðherra í ræðu sinni þegar hann mælti fyrir frumvarpinu.

„Í frumvarpinu er meðal annars lögð til tímabundin lækkun á tryggingagjaldinu auk nauðsynlegra leiðréttinga og annarra breytinga á ýmsum lögum um skatta og gjöld,“ sagði Bjarni á Alþingi í dag. „Einnig er um að ræða undanþágu ökutækja, sem knúin eru metani, metanóli, rafmagni eða vetni til vöruflutninga frá vörugjaldi og greiðslu á lágmarks bifreiðagjaldi í tilfelli rafmagns og vetnisbifreiða og fleira.“

Fjölmargar breytingar og leiðréttingar eru í frumvarpinu sem flestar eru vegna kórónaveirufaraldursins. Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins sagði að hans flokkur hefði viljað sjá mun myndarlegri lækkun tryggingagjalds og jafnvel fella það niður tímabundið.