Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Iðulega spurt hvað Biden hyggist fyrir eftir fjögur ár

epa04909709 US Vice President Joe Biden speaks at the Science Complex at Miami Dade College?s (MDC) North Campus, Florida, USA, 02 September 2015. Vice President Biden discussed the importance of helping Americans go to college and the critical role that
 Mynd: EPA
Joe Biden fagnar sjötugasta og áttunda afmælisdegi sínum næstkomandi föstudag. Hann er elstur allra til að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna og verður orðinn 86 ára árið 2029, við lok annars kjörtímabils síns.

En spurningin sem brennur á vörum margra er einmitt hvort Joe Biden muni gera atlögu að því að sitja tvö kjörtímabil eða lætur hann eitt nægja. Biden sjálfur hefur látið mikið uppi um fyrirætlanir sínar í þeim efnum.

Í ágúst síðastliðnum lét hann þó vilja sinn til að gegna embættinu í átta ár sterklega í ljós í viðtali við ABC fréttastofuna. Í apríl vakti athygli þegar Biden talaði um sig sem millibils-frambjóðanda, eða einhvers konar tengilið.

Þá kviknuðu spurningar á borð við hvort hann áliti sig vænlegasta kostinn til að takast á við Donald Trump og stjórnarstefnu hans, vegna áratuga reynslu af stjórnmálum og hlýlegs viðmóts hans.

Þegar sá björn væri unninn léti hann nægja að gegna embætti forseta til 2024 þegar hann gæti fært nýrri kynslóð stjórnmálamanna keflið. Fjöldi vonarstjarna Demókrataflokksins var ekki fæddur þegar Biden var fyrst kosinn til öldungadeildar Bandaríkjaþings árið 1972.

Öruggt að hann hyggst sitja í átta ár

Valerie, systir Bidens, hefur stutt hann með ráðum og dáð alla hans stjórnmálatíð en hefur kosið að halda sig utan kastljóss fjölmiðlanna. Hún sagðist í viðtali á HBO vera sannfærð um að bróðir hennar sæktist eftir því að sitja tvö kjörtímabil.

Það væri heldur ekki skynsamlegt að lýsa því yfir í upphafi að hyggjast aðeins ætla að vera forseti í fjögur ár. Það myndi valda togstreitu og valdabaráttu innan flokksins.

Valerie Biden sagðist álíta að með því orðum sínum í apríl hafi Joe átt við að hans hlutverk væri að laða að ungt fólk og að sameina Bandaríkin á ný. 

„Skrambi ertu nú gamall“

Joe Biden hefur ekki farið í grafgötur með að honum þyki eðlilegt að ræða aldur hans. Haustið 2018 sagðist hann skilja að fólk brygðist við með orðunum „Skrambi ertu nú samt gamall,“ tæki hann þá ákvörðun að gera þriðju atlöguna að forsetaembættinu. 

„Jú jú ég er gamall í árum talið,“ bætti hann við en gaf loks sterklega í skyn að aldur væri aðeins tala og að hann væri enn fullur af baráttuþrótti, snöggur að hugsa og bregðast við. 

Því má búast við að keppinautar Biden, í hans eigin flokki og Repúblikanaflokknum, leggi eyrun vel við innsetningarræðu hans 20. janúar næstkomandi. Allir munu hlusta eftir minnstu vísbendingu um hverjar fyrirætlanir hans verði að fjórum árum liðnu. 

Fáir forsetar hafa látið eitt kjörtímabil duga

Gervöll saga Bandaríkjanna geymir fáa forseta sem ekki hafa sóst eftir endurkjöri. Alla kosningabaráttu James Polk, sem tók við embættinu 1845, lá ljóst fyrir að hann hygðist aðeins sitja eitt kjörtímabil.

Hann stóð við það loforð en vitaskuld er fremur fátt líkt með stjórnmálum miðrar 19. aldar og þeim sem við þekkjum í dag. 

Lyndon B. Johnson tók við embættinu 1963 eftir að John F. Kennedy var myrtur og hafði tiltölulega auðveldan sigur gegn Repúblikanum Barry Goldwater í kosningunum 1964. Hann ákvað að stíga til hliðar og gefa ekki kost á sér fjórum árum síðar.

Johnson hafði þá mætt mikilli andstöðu vegna þátttöku Bandaríkjanna í Víetnam stríðinu auk þess sem yngri og framsæknari menn sóttu að honum innan Demókrataflokksins. Álitið er að hann hafi því talið ósigur vísan og ákveðið að láta gott heita.  

„Forsetinn gerir sig virkilega gildandi á öðru kjörtímabili sínu,“ segir Julian Zelizer sagnfræðingur og sérfræðingur í sögu forsetaembættisins í samtali við AFP-fréttastofuna. Jafnframt öðlist forsetinn þá tækifæri til að taka erfiðar pólítiskar ákvarðanir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af endurkjöri.