Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Framhaldsskólanemar þreyttir á ástandinu

19.11.2020 - 19:05
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Fréttir
Tveggja metra reglan hefur verið afnumin í framhaldsskólum og 25 mega koma saman í sóttvarnahólfi, með nýrri undanþágu sem tók gildi í gær. Nemendur Verslunarskólans fagna því að mega aftur koma í skólann eftir langa bið. 

Nemendur á fyrsta ári í Verslunarskóla Íslands hrukku sumir í kút þegar skólabjallan hringdi inn kennslustund í morgun, enda óvanir hljóðinu eftir fjarkennslu í fleiri vikur. 

Flestir framhaldsskólar í höfuðborginni halda þó fjarnámi áfram óbreyttu. Menntamálaráðherra sat fyrir svörum á opnun fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun. Hún segir að allt kapp verði lagt á að halda skólunum opnum, ríði aðrar bylgjur yfir. 

„Við höfum fengið þessa undanþágu að það geta verið 25 í einu sóttvarnahólfi og ekki tveggja metra reglan ef þú notar grímu. Þannig að við erum búin að vera með opnanir á þessi hólf. Það sem við munum gera í kjölfarið er að við viljum í raun og veru að framhaldsskólarnir geti starfað burt séð frá því hvort það komi fjórða eða fimmta bylgja. Við erum að vinna núna með hverjum einum og einasta framhaldsskóla út frá skólabyggingu, út frá loftræstingu og á hvaða stöðu skólinn er hverju sinni en tryggja sem mest staðnám,“ sagði Lilja á fundinum. 

Ingi Ólafsson er skólastjóri Verzlunarskólans. Hann segir mikilvægt að raska kennslu sem minnst. „Okkur finnst það mjög mikilvægt. Ekkert endilega námslega séð, heldur bara andlega og félagslega fyrir krakkanna skiptir þetta öllu máli.“

Samkvæmt nýrri rannsókn Sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík metur næstum annar hver framhaldsskólanemi á fyrsta ári námsárangur sinn verri í faraldrinum en áður og um helmingur segir faraldurinn hafa haft slæm áhrif á andlega heilsu. Ingi segir að nemendur séu þreyttir á ástandinu. „Í fyrstu finnst mér eins og nemendum líði ekki eins illa og við héldum en álagið námslega er mjög mikið og þau eru orðin þreytt.“