Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fólk á einhverfurófi á oft í góðum samskiptum við hesta

Mynd: RÚV / RÚV

Fólk á einhverfurófi á oft í góðum samskiptum við hesta

19.11.2020 - 11:03

Höfundar

„Við mennirnir getum verið pínulítið ólík. Við getum verið greind á einhverfurófi í mannheimum en átt stórkosleg samskipti við hesta og öfugt. Fólk sem er mjög félagsfært kann oft ekkert á hesta,“ segir Björk Jakobsdóttir hestakona og höfundur spennu- og örlagasögunnar um Hetju sem reynir að finna leiðina heim.

Hetja er barna- og unglingabók eftir Björk Jakobsdóttur og fjallar um íslensku hryssuna Hetju. Egill Helgason hitti bæði höfundinn og söguhetjuna sjálfa og ræddi við Björk um bókina.

Björk segir allt of sjaldséð að hestar fái verðskuldað pláss í barna- og unglingabókum og ákvað hún því sjálf að grípa til sinna ráða enda segir hún hestinn vera þarfasta þjón okkar mannanna. Bókinni lýsir hún sem örlagabók sem er hlaðin spennu sem vonandi hvetji börn til að lesa. „En í leiðinni þykir mér vænt um að auka skilning og áhuga á íslenska hestinum,“ segir hún. Börn fari enda ekki eins mikið í sveit og áður og fái því ekki tækifæri til að kynnast hestamennskunni. „Því er um að gera að koma með sveitina í borgina,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er kominn tími til að þarfasti þjónninn fái pláss í barnabókum samkvæmt höfundi.

Sagan er sögð frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar frá sjónarhorni Hetju og hins vegar eiganda hennar, henni Björgu. „Þú fylgist með framvindunni út frá augum þeirra beggja,“ segir Björk. Hetja er tekin í misgripum af manni sem virðist svo ekkert vera í mun að skila henni þegar hann áttar sig á misskilningnum. Þá hefst leit Bjargar að bestu vinkonu sinni og jafnframt barátta Hetju við að komast heim. „Fyrst og fremst á þetta að vera spennu- og örlagasaga en líka saga um samskipti og tungumál,“ segir Björk.

Hún segir að hestar tali öðruvísi en menn, gefi frá sér annars konar merki og að því leyti séu tegundirnar ólíkar. En þó eigi sumir menn nokkuð auðvelt með að tengjast hestum og tala við þá og skilja. „Við mennirnir getum verið pínulítið ólík. Við getum verið greind á einhverfurófi í mannheimum en átt stórkostleg samskipti við hesta og öfugt. Fólk sem er mjög félagsfært kann oft ekkert á hesta.“

Sjálf segist hún eiga mjög gott með að tala við hestana. Hún varði enda öllum sumrum í sveit í æsku, var borgarbarn á veturna og sveitastelpa á sumrin. Í dag býr hún í borginni en fer oft í sveitina og tekur gjarnan að sér leiðsögn í hestaferðum. „Ég hef verið á hálendinu í brakandi sól og berjandi byl með lausum hestum en ég er ekkert endilega landsmótskeppandi,“ segir hún. „En ég tel mig mjög færa í tungumáli hesta.“

Hún og Gunnar Helgason, eiginmaður hennar, gefa bæði út barnabók í ár og það er í fyrsta skipti í þeirra hjónabandi sem þau lenda í slíkri samkeppni. „Við gerum grín að því að við séum að keppast en það er mest í góðu. Við styðjum hvort annað,“ segir Björk.

Upphaflega stóð til að gera kvikmynd um Hetju en svo ákvað hún að skrifa frekar bók og fá Freydísi Kristjánsdóttur til að glæða söguna lífi með ævintýralegum myndskreytingum. „Ég vildi fá svona Walt Disney-myndir, alvöru hesta og myndir sem kalla fram tilfinningu,“ segir hún. „Ég fann það þegar ég horfði á myndirnar og byrjaði að teikna að ég fékk svona: Já. Eins og þegar ég las Black Beauty þegar ég var lítil.“

Egill Helgason ræddi við Björk Jakobsdóttur í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Leiklist

Gunnar læsti sig inni í herbergi á fyrsta stefnumótinu