Fjölmiðlamaðurinn síforvitni hefur haft í nægu að snúast síðustu mánuði. Í dag verða frumsýndir í Sjónvarpi Símans nýir sjónvarpsþættir eftir Þorstein sem nefnast Sögur sem breyta heiminum. Fyrir skemmstu gaf hann líka út bókina Ég skal vera ljósið. Þorsteinn kíkti í Morgunútvarpið á Rás 2 og sagði frá þessum nýútkomnu sögum.
Nærmynd af fólki sem hefur breytt lífi sínu
„Þetta er mjög hógvært nafn, Sögur sem breyta heiminum,“ segir Þorsteinn kíminn. Um er að ræða sex tólf mínútna viðtalsþætti þar sem ólíkar miðlunarleiðir eru sameinaðar svo úr verður nokkurs konar portrett af manneskju. „Ég blanda saman bæði lifandi myndefni sem er tekið upp með alls konar kamerum og ljósmyndum en svo er hugmyndin að fá þessa sex einstaklinga til að segja frá atburði eða ákvörðun sem breytti lífi þeirra.“
Ákvarðanir þessa fólks eru eins ólíkar og þær eru margar en þær eiga það allar sameiginlegt að hafa breytt lífi þeirra. „Ákvarðanir um að vera með uppistand, fara á brimbretti, læra til prests, verða skáld eða eitthvað allt annað.“ Um leið og við sjáum manneskjuna birtast á skjánum spyr Þorsteinn Joð sinni kunnuglegu röddu og af alkunnri forvitni: „Hvað var það sem gerðist?“ Og hún leysir frá skjóðunni.
Að horfa í kringum sig og hlusta
En hvar fann hann þetta fólk og þessar sögur? „Ég segi stundum, ef ég er spurður, að þetta snúist bara um að horfa í kringum sig og hlusta. Það er fólk alls staðar í kringum okkur sem hefur sögu að segja sem bæði við tengjum við eða þær geta orðið okkur hvatning,“ segir Þorsteinn. Hann hafði hitt eða frétt af öllum þeim sem hann tók viðtöl við í þáttunum. „Svo byrjar þetta á að ég tek upp símann og segi: Sæl. Ég er að fara af stað með þessa hugmynd. Ertu til í að vera með?“ Allir tóku hugmyndinni fagnandi.
Hann er stoltur af afurðinni og segist hrifinn af frásagnarhættinum. „Mér finnst hann vera blanda af portrettljósmyndun og viðtali við viðkomandi í ólíkum aðstæðum. Það er svona aristótelísk uppbygging, upphaf miðja og endir, en gert á mjög knappan og spennandi hátt. Það fannst mér vera það sem mig langaði að gera skil að lokum.“
Hvaðan kemur köllun fólks í lífinu?
Fólkið sem Þorsteinn ræðir við er ekki sama fræga fólkið og við sjáum ítrekað á skjánum. Þau áttu samt ekki í neinum vandræðum með að treysta Þorsteini og opna sig fyrir framan myndavélina. Mikilvægast er að það myndist traust á milli hans og viðmælandans um hvað á að skrásetja, hvað á að segja og hvað á að mynda. Og það að vera ekki að tala við þjóðþekkta einstaklinga tekur athyglina af því hvort viðkomandi er frægur og beinir henni að öðru og jafnvel mikilvægara: „Hvaða sögu hann hefur að segja.“
Sögurnar eru ekki endilega dramatískar en fjalla allar um að taka ákveðna u-beygju í lífinu og fylgja hjartanu. „Þetta hefur verið skrifað um frá örófi alda og endalaust,“ segir Þorsteinn.
Hann vitnar í Joseph Campbell sem var prófessor í goðsögum sem einmit talaði um mikilvægi þess að fylgja sinni köllun. „Follow your bliss er hans frægasta setning en hvað er þetta bliss? Það er þitt hlutverk að komast að því. Það getur enginn sagt þér, ekki foreldrarnir í skólanum, ekki kennararnir eða vinirnir. Þú þarft að fara og raunverulega taka ákvörðun og fylgja henni svo eftir.“