„Ekki verða leiðinlegur og miðaldra“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ekki verða leiðinlegur og miðaldra“

19.11.2020 - 13:40

Höfundar

„Ekki týna forvitninni. Hvað gerðist? Segðu mér frá því,“ segir fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. Vilhjálmsson reglulega og hann stefnir ekki að því að hætta. Hann var að gefa út óhefðbundna viðtalsþætti og nýverið margmiðlunarbók sem er innblásin af atburðum sem settu fjölskyldu hans á hliðina.

Fjölmiðlamaðurinn síforvitni hefur haft í nægu að snúast síðustu mánuði. Í dag verða frumsýndir í Sjónvarpi Símans nýir sjónvarpsþættir eftir Þorstein sem nefnast Sögur sem breyta heiminum. Fyrir skemmstu gaf hann líka út bókina Ég skal vera ljósið. Þorsteinn kíkti í Morgunútvarpið á Rás 2 og sagði frá þessum nýútkomnu sögum.

Nærmynd af fólki sem hefur breytt lífi sínu

„Þetta er mjög hógvært nafn, Sögur sem breyta heiminum,“ segir Þorsteinn kíminn. Um er að ræða sex tólf mínútna viðtalsþætti þar sem ólíkar miðlunarleiðir eru sameinaðar svo úr verður nokkurs konar portrett af manneskju. „Ég blanda saman bæði lifandi myndefni sem er tekið upp með alls konar kamerum og ljósmyndum en svo er hugmyndin að fá þessa sex einstaklinga til að segja frá atburði eða ákvörðun sem breytti lífi þeirra.“

Ákvarðanir þessa fólks eru eins ólíkar og þær eru margar en þær eiga það allar sameiginlegt að hafa breytt lífi þeirra. „Ákvarðanir um að vera með uppistand, fara á brimbretti, læra til prests, verða skáld eða eitthvað allt annað.“ Um leið og við sjáum manneskjuna birtast á skjánum spyr Þorsteinn Joð sinni kunnuglegu röddu og af alkunnri forvitni: „Hvað var það sem gerðist?“ Og hún leysir frá skjóðunni.

Að horfa í kringum sig og hlusta

En hvar fann hann þetta fólk og þessar sögur? „Ég segi stundum, ef ég er spurður, að þetta snúist bara um að horfa í kringum sig og hlusta. Það er fólk alls staðar í kringum okkur sem hefur sögu að segja sem bæði við tengjum við eða þær geta orðið okkur hvatning,“ segir Þorsteinn. Hann hafði hitt eða frétt af öllum þeim sem hann tók viðtöl við í þáttunum. „Svo byrjar þetta á að ég tek upp símann og segi: Sæl. Ég er að fara af stað með þessa hugmynd. Ertu til í að vera með?“ Allir tóku hugmyndinni fagnandi.

Hann er stoltur af afurðinni og segist hrifinn af frásagnarhættinum. „Mér finnst hann vera blanda af portrettljósmyndun og viðtali við viðkomandi í ólíkum aðstæðum. Það er svona aristótelísk uppbygging, upphaf miðja og endir, en gert á mjög knappan og spennandi hátt. Það fannst mér vera það sem mig langaði að gera skil að lokum.“

Hvaðan kemur köllun fólks í lífinu?

Fólkið sem Þorsteinn ræðir við er ekki sama fræga fólkið og við sjáum ítrekað á skjánum. Þau áttu samt ekki í neinum vandræðum með að treysta Þorsteini og opna sig fyrir framan myndavélina. Mikilvægast er að það myndist traust á milli hans og viðmælandans um hvað á að skrásetja, hvað á að segja og hvað á að mynda. Og það að vera ekki að tala við þjóðþekkta einstaklinga tekur athyglina af því hvort viðkomandi er frægur og beinir henni að öðru og jafnvel mikilvægara: „Hvaða sögu hann hefur að segja.“

Sögurnar eru ekki endilega dramatískar en fjalla allar um að taka ákveðna u-beygju í lífinu og fylgja hjartanu. „Þetta hefur verið skrifað um frá örófi alda og endalaust,“ segir Þorsteinn.

Hann vitnar í Joseph Campbell sem var prófessor í goðsögum sem einmit talaði um mikilvægi þess að fylgja sinni köllun. „Follow your bliss er hans frægasta setning en hvað er þetta bliss? Það er þitt hlutverk að komast að því. Það getur enginn sagt þér, ekki foreldrarnir í skólanum, ekki kennararnir eða vinirnir. Þú þarft að fara og raunverulega taka ákvörðun og fylgja henni svo eftir.“

Atburður sem setti fjölskylduna á hliðina

Bók hans, Ég skal vera ljósið, kom út nýverið og er líka nokkurs konar margmiðlunarverk sem sett er saman úr mörgum sögum. „Hluti þess eru sögur úr minni fjölskyldu frá móður minni, afa og ömmu og atburður sem gerðist í fjölskyldunni og setti allt á hliðina,“ segir Þorsteinn. „Svo er þetta soðið saman með skáldskap.“

Rannsóknarvinnan fyrir bókina tók hann tvo áratugi. Hann skoðaði meðal annars gamlar dagbækur til að fá betri mynd á söguna. „Sögusviðið er Slippurinn í Reykjavík sem er svona hugmynd um endurbyggingu. Þessi staður þar sem skipskrokkar koma inn í slipp til viðgerðar og rennt út eins og ekkert sé á háflóði. Það finnst mér hafa verið ofboðslega merkilegt.“

Mikilvægt að týna ekki forvitninni

Bókin er gefin út sem hljóðbók þar sem hann les og blandar saman umhverfishljóðum og tónlist en líka rafbók. „Þetta er eiginlega verk um leit að merkingu og leikur að merkingum,“ segir hann. „Þetta er tilraun til að laða fólk að eða bjóða fólki inn í ákveðinn veruleika verksins því í verkinu er ég ekki endilega Þorsteinn. Og ná að tengjast og skoða og upplifa hluti sem fólki finnst vera merkilegir.“

Í raun finnist honum hann vera að vinna að sama verkinu, alveg frá því hann hóf störf hjá Ríkisútvarpinu sextán ára. „Að skrásetja. Hlusta á og tala við fólk og búa til úr efninu eitthvað sem væri mögulega aðlaðandi fyrir aðra í fjölmiðlum, hvort sem það er útvarp, sjónvarp, bók eða annað,“ segir hann. Verkið snýst um að halda áfram að skoða. „En ekki verða leiðinlegur og miðaldra. Ekki týna forvitninni. Hvað gerðist? Segðu mér frá því?“

Stórkostlegt að fá viðbrögð frá lesendum

Það er stundum talað um að það sé búið að skapa allt. Semja öll lögin og skrifa allar bækurnar en það segir Þorstein vera ranga nálgun á lífið, sögurnar og listina. „Starfið snýst um að halda áfram og búa til hluti sem gefa lífi manns næringu og merkingu en smitar vonandi út frá sér.“

Þorsteinn hefur fengið heilmikil viðbrögð frá lesendum og það finnst honum gaman. „Ein var að lesa um helgina og hún sendi mér stöðug skilaboð á Messenger: Hvað á höfundur við?“ segir hann. „Mér finnst þetta vera stórkostlegt.“

Rætt var við Þorstein J. Vilhjálmsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Algjört kjaftæði að tíminn lækni öll sár

Menningarefni

„Þessi atburður setti fjölskylduna á hliðina“