Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bóluefnið berst í litlum skömmtum til landsins

19.11.2020 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Heilbrigðisráðherra segir alveg ljóst að bóluefni gegn kórónuveirunni berist hingað í litlum skömmtum þannig að ekki verði hægt að bólusetja alla þjóðina strax. Miða þurfi allar aðgerðir við þau þrep sem stigin verða í bólusetningum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti Alþingi í dag munnlega skýrslu um sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu – og eins og segir orðrétt einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi.

Þingmenn voru almennt sammála um að vel hefði tekist til en eins og áður í þessari umræðu þykja sumum aðgerðirnar of íþyngjandi og lýsa yfir áhyggjum af næstu mánuðum.

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokks er einn þeirra og hann velti fyrir sér hvenær hægt yrði að slaka á aðgerðum, hve lengi aðgerðirnar ættu að vera við lýði og fyrir hvaða hópa.

„Einhverjar hugmyndir eða aðgerðir hafi verið í farvatninu um það að reyna að einblína á þá hópa við að verja þá sérstaklega í staðinn fyrir að fara í svona mjög almennar og í þyngjandi aðgerðir því einhver mörk hljóta að vera á þessu,“ sagði Brynjar.

Svandís benti á að það er óljóst hvenær glímunni við veiruna ljúki, þó við sjáum fyrir endann á henni. „En að öllum líkindum og ég held að það sé alveg ábyrgt að segja það að bóluefni ætti að vera aðgengilegt á árinu 2021.“

„Það er líka alveg ljóst að það mun koma til okkar í litlum skrefum þannig að við munum ekki vera með bóluefni til að bólusetja alla þjóðina frá fyrsta degi þannig að við verðum að miða aðgerðirnar og breytingar á aðgerðunum við þá þau þrep sem að við stígum í tengslum við bólusetningar,“ sagði Svandís.