Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Yfir tvær milljónir greinst smitaðar í Frakklandi

18.11.2020 - 09:38
epa08804617 French Police officers patrol and control the mobility paper in the deserted Trocadero square near the Eiffel Tower during the second national lockdown, dubbed reconfinement, in Paris, France, 07 November 2020. France is into a second lockdown for a minimum of four weeks to battle the rise in Covid-19 cases, effectively shutting down bars, cafes and restaurants and requiring non-essential workers to remain home.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir tvær milljónir manna hafa nú greinst með kórónuveirusmit í Frakklandi og er það fyrst landa í Evrópu sem þar sem sá fjöldi greinist. Frakkland er í fjórða sæti ríkja yfir fjölda staðfestra smita á eftir Brasilíu, Indlandi og Bandaríkjunum.

Heildarfjöldi staðfestra smita á heimsvísu nálgast nú 56 milljónir, en ríflega 1,3 milljónir manna hafa látist úr COVID-19.

Í Bandaríkjunum hafa verið greind fleiri smit en annars staðar eða fleiri en ellefu miljónir. Hátt í 250.000 hafa dáið þar úr COVID-19. Fjöldi staðfestra smita en næst mestur á Indlandi um það bil níu milljónir, en þar hafa ríflega 130.000 dáið. Staðfest smit í Brasilíu eru um sex milljónir, en dauðföll nálgast þar 170.000.

Í Rússlandi var tilkynnt um næstum 21.000 smit í gær, en nærri 460 dauðsföll af völdum COVID-19. Þar er fjöldi smitaðra að nálgast tvær milljónir. Spánn kemur þar næst með rúmlega eina og hálfa milljón staðfestra smita og ríflega fjörutíu og eitt þúsund dauðsföll.

Staðfestum kórónuveirutilfellum hefur fjölgað á Norðurlöndunum eins og víða annars staðar, þar á meðal í Noregi, en í höfuðborginni Ósló greindust 223 með kórónuveirusmit síðasta sólarhring sem er mesti fjöldi á einum degi í borginni frá upphafi faraldursins.

Hátt í 2.300 kórónuveirusmit hafa greinst í Ósló undanfarinn hálfan mánuð. Alls hafa um 30.000 greinst með kórónuveirusmit í Noregi frá því faraldurinn barst þangað, en um 300 hafa látist þar úr COVID-19.

Í Þýskalandi greindust ríflega 17.000 með kórónuveirusmit síðasta sólarhring, en 305 létust þar úr COVID-19. Yfir 830.000 hafa greinst þar smitaðir frá upphafi faraldursins, en ríflega 13.000 hafa látist úr sjúkdómnum.
 

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV