Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útgöngubann fyrirskipað í Suður-Ástralíu

18.11.2020 - 03:29
epa08824524 South Australian Premier Steven Marshall speaks at a COVID-19 update press conference in Adelaide, Australia, 17 November 2020. New restrictions on hairdressers, beauty salons, pubs, restaurants and gyms will come into effect on 18 November in response to a COVID-19 outbreak in Adelaide.  EPA-EFE/KELLY BARNES  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Gripið hefur verið til sex daga útgöngubanns í Suður-Ástralíu fylki eftir að hópsmit kom upp í höfuðborginni Adelaide.

Uppruna smitsins má rekja til hótels í borginni sem hýsir erlenda ferðamenn í sóttkví en alls greindust tuttugu og tveir þar með COVID-19. Bannið tekur gildi á morgun, 18. nóvember.

Skólum, veitingastöðum og verksmiðjum verður gert að loka og íbúum fylksins ber að halda sig heima við, nema brýna nauðsyn beri til að fara úr húsi.

„Við ætlum að bregðast hratt og hart við þessu. Það þarf að taka rösklega og ákveðið á útbreiðslu veirunnar," segir Steven Marshall forsætisráðherra Suður-Ástralíu og bætir við að alls ekki megi bíða og sjá hverju fram vindi.

Ekki borgar sig að tvínóna við ákvarðanatöku að sögn Nicolu Spurrier yfirmanns heilbrigðismála í fylkinu, jafnvel gætu tveir til þrír dagar reynst of langur tími.

Hún kveðst vonast til að með því að bregðast hratt við verði komist hjá langvarandi útgöngubanni líkt og urðu örlög íbúa Melbourne fyrr á árinu.