Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mogens Jensen segir af sér vegna minkamálsins

18.11.2020 - 11:13
Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra Danmerkur. Mikill þrýstingur er hann að segja af sér vegna þess að ríkisstjórnin fyrirskipaði að öllum minkum í landinu skuli lógað án þess að lagaheimild væri til þess.
 Mynd: DR-Tvisen - Danmarks Radio
Mogens Jensen hefur sagt af sér sem landbúnaðarráðherra Danmerkur eftir að hafa sætt mikilli gagnrýni vegna minkamálsins svokallaða. Þrýst hefur verið á afsögn Jensens eftir að ríkisstjórnin fyrirskipaði að allir minkar skyldu aflífaðir án þess að lagaheimild væri fyrir hendi. „Það er niðurstaða mín að ég nýt ekki lengur trausts hjá danska þinginu,“ segir Jensen í viðtali við DR þar sem hann greindi frá afsögn sinni.

Jensen viðurkennir að mistök hafi verið gerð í ráðuneyti hans og á þeim verði hann að axla ábyrgð.  „Ég hef sagt það áður og segir það aftur; mér þykir þetta leitt. Og mér þykir leitt hversu erfið staðan er hjá mörgum minkabændum.“ Jensen er fyrsti ráðherrann í ríkisstjórn Mette Frederiksen sem neyðist til að segja af sér.

Danska ríkisstjórnin fyrirskipaði í byrjun mánaðarins að öllum minkum skyldi lógað vegna þess að kórónuveiran hefði stökkbreyst í dýrunum og borist í fólk. Óttast var að þetta gæti leitt til þess að bóluefni við veirunni yrðu gagnslítil. Bretar gripu til að mynda til mjög harðra aðgerða og settu á ferðabann til Danmerkur.

Síðar kom í ljós að lagaheimild skorti til að fyrirskipa að dýrum á þeim búum þar sem ekki hafði komið upp smit yrði lógað.  Stjórnarandstaðan brást hart við þeim tíðindum og krafðist þess strax að Jensen segði af sér. 

Minkabændur voru jafnframt furðu lostnir á því að enginn í ríkisstjórninni skyldi hafa áttað sig á því að ekki væri lagaheimild fyrir slíkri skipun.  Einn þeirra sagði í viðtali við DR að þetta væri skammarlegt.