Mikilvægt að komast á vinsæla lagalista á Spotify

Mynd:  / 

Mikilvægt að komast á vinsæla lagalista á Spotify

18.11.2020 - 10:13

Höfundar

Streymisveitur á borð við Spotify eru ein mikilvægasta tekjulind tónlistarfólks. Það getur skipt öllu máli að komast inn á ákveðna lagalista sem bæði veitan sjálf og almennir notendur búa til. Þetta þekkir tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn vel. Hún býður tónlistarfólki upp á námskeið þar sem hún fer yfir leiðir sem geta reynst vel við að koma tónlist sinni á vinsæla lagalista.

Unnur Sara hefur sjálf náð góðum árangri í þessum efnum en lag hennar, La javanaise, er með vel yfir milljón spilanir á Spotify. „Ég byrjaði í þessu fyrir algjöra tilviljun. Fyrir tveimur árum kom platan mín Unnur Sara syngur Gainsbourg. Þá komst ég inn á lista sem heitir French Coffee Lounge sem er spilaður út um allan heim, meðal annars á kaffihúsum og veitingastöðum. Þá fór ég að sjá hvað þetta getur munað miklu fjárhagslega. Svo í vor þegar það var ekkert að gera ákvað ég að fara að skoða þetta almennilega. Rannsaka og skoða mismunandi aðferðir hvernig er best að gera þetta,” segir Unnur Sara í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Hún segir að fólk fari ýmsar leiðir við að koma lögum sínum á framfæri hjá Spotify. Hægt er að hafa beint samband við starfsfólk Spotify sem sér um að búa til lagalista fyrir veituna en einnig er hægt að hafa samband við sjálfstæða listahöfunda og taka jafnvel við greiðslum til þess að hlusta á ný lög. 

Talsverðar tekur geta fylgt því að koma lagi sínu á vinsæla lista. „Þetta geta verið einhver hundruð þúsunda á ári,” segir Unnur Sara. Hún ákvað að taka upp nýja plötu í sumar með franskri tónlist sem kemur út á næsta ári og segist vita að platan geti staðið undir sér út af þessum tekjum.

Hún segir arðbærustu listana vera þá sem selja ákveðna stemningu, eins og listar með franskri kaffihúsatónlist eða tónlist fyrir matarboð. Þannig listar séu vinsælir á veitingahúsum, kaffihúsum sem og hjá almennum notendum Spotify.

Í kjölfar þess að Unnur Sara náði árangri með að koma lögum sínum á vinsæla lista höfðu margir samband við hana og báðu um góð ráð. „Ég ekki útskýrt það í nokkrum orðum þannig að ég ákvað að skella í námskeið. Hélt að einhverjir þrír sem ég þekki hefðu áhuga en svo er þetta orðið miklu stærra núna,” segir Unnur Sara. 

Nýtt lag frá Unni Söru er þegar komið inn á vinsæla lista og það sé gott dæmi um hversu mikilvægt það er að vera sniðug í markaðssetningu lagalista á Spotify. „Listinn sem ég komst inn á í vor, þá hét hann French Mornings og var ekkert sérstaklega stór. En svo er hún svo ótrúlega sniðug stelpan sem gerði hann, hún er Instagram-áhrifavaldur. Í haust breytti hún nafninu í French Mornings / Emily in Paris vibes. Það gerði það að verkum að það fjölgaði fylgjendum um hundrað á dag, síðan í október. Ég er að fá alltaf meiri og meiri spilun fyrir þann lista,” segir Unnur Sara. 

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um námskeiðið hér.

Tengdar fréttir

Norðurland

Ungur Sauðkrækingur með tugi milljóna spilana á Spotify