Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Halda áfram fjarkennslu þrátt fyrir tilslakanir

Mynd með færslu
 Mynd:
Staðkennsla hefst að nýju í sumum framhaldsskólum á landinu í dag en í öðrum hefur verið ákveðið að bjóða áfram einungis upp á fjarkennslu. Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi á miðnætti mega nemendur í framhaldsskólum vera að hámarki tuttugu og fimm í hverju rými, í stað þess að mega aðeins vera tíu eins og áður.

Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir í samtali við fréttastofu að tilslakanirnar geri skólanum kleift að hafa bókasafnið opið og bjóða nemendum upp á aðgang að lesrými. Staðkennsla hefjist þó ekki fyrr en á næsta ári. 

Vilja ekki frekari breytingar

„Þetta er svona hvernig maður les hópana. Bæði nemendahópinn og kennarahópinn. Fólk er búið að þurfa að skipta svo oft um kúrs alla önnina að þegar tíu dagar eru eftir þá vill fólk bara ekki fara að taka einhverja sénsa í lokin,“ segir hún. „Það er þröngt hjá okkur og þótt við séum með grímur, þá erum við sums staðar bara með þrjátíu sentimetra bil,“ segir hún.

Elísabet nefnir að hvorki nemendur né kennarar vilji breyta kennslufyrirkomulaginu í fimmta skipti. „Önninni er að ljúka og menn eru búnir að gera ráðstafanir svo það varð ofan á að gera þetta svona og við erum fyrst og fremst að stefna á það að hefja staðkennslu í janúar,“ segir hún.

Verzlunarskóli Íslands er hins vegar á meðal þeirra framhaldsskóla þar sem stjórnendur hafa ákveðið að hefja staðnám að nýju vegna tilslakana. Þar verður kennslufyrirkomulagið sambærilegt því sem var í haust, áður en reglur um takmarkanir á skólastarfi voru hertar. Kennslustundir fara þá ýmist fram í skólanum eða með fjarfundabúnaði. 

Staðnám ómögulegt þegar nemendur blandast

Fjölbrautaskólar með áfangakerfi eru síður í stakk búnir til að halda úti staðnámi þar sem nemendur blandast mun meira en í bekkjakerfi. Í Fjölbrautaskóla Vesturlands verður kennslufyrirkomulagið til dæmis óbreytt, þar verður áfram fjarkennsla í bóknámi en kennt í staðnámi í iðngreinum og á starfsbraut, þar sem nemendur eru alltaf með sama hópnum. Sambærilegt fyrirkomulag verður í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. „Þar sem blöndun nemenda milli hópa er ekki leyfð höfum við tekið þá ákvörðun að skólastarfið verði áfram með sama hætti hjá okkur út þessa önn,“ segir á vefsíðu skólans.