Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bóluefni og staða MAX-véla auka bjartsýni Icelandair

18.11.2020 - 22:01
Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV - Bragi Valgeirsson
Forstjóri Icelandair segist bjartsýnni en áður að félagið nái viðspyrnu strax næsta sumar. Stefnt er að því að hafa þá sex Boeing MAX-vélar í flota félagsins, en tryggja verður að farþegar treysti vélunum

737 MAX-vélar Boeing hafa verið kyrrsettar í tuttugu mánuði eftir tvö mannskæð flugslys þar sem 346 létu lífið. Bandarísk flugmálayfirvöld staðfestu í dag flughæfni vélarinnar, sem tekur þó aðeins til bandarískra flugrekenda.

„Það sem við bíðum eftir núna er að evrópsk flugmálayfirvöld geri slíkt hið sama. Það mun væntanlega gerast á næstu vikum. En við erum að gera ráð fyrir því að taka vélarnar aftur inn í okkar flota og leiðakerfi næsta vor,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Icelandair hefur þegar tekið við sex MAX-vélum og fær sex vélar afhentar til viðbótar á næstu mánuðum. Félagið féll hins vegar frá kaupum á fjórum vélum sem hluta af skaðabótasamkomulagi við Boeing frá því í sumar. Bogi segir að kapp verði lagt á að fullvissa fólk um öryggi vélanna.

„Þegar við byrjum að fljúga vélunum þá væntanlega verða flugmálayfirvöld um allan heim búin að staðfesta vélina og staðfesta flughæfni vélanna. Við þurfum náttúrulega bara að kynna þetta ferli mjög vel fyrir okkar viðskiptavinum. Við gerum ráð fyrir að það gangi ágætlega.“

Eftir afar erfiða mánuði í flugrekstri virðist nú loks vera að rofa til, þó erfitt sé að segja til um hver eftirspurnin verður.

„Þessar jákvæðu fréttir af bóluefnum auka bjartsýni mína og allra í þessari starfsgrein. Óvissan er engu að síður talsverð ennþá. Við erum undirbúin fyrir gott sumar á næsta ári, en á sama tíma er félagið líka undirbúið fyrir óvissu til nokkuð langs tíma. Við erum bara undirbúin undir allar sviðsmyndir,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.