Þátttakendur kjósa sjálfir um þær spurningar sem þeir vilja fá svörin við, en gríðarlegur áhugi er á viðburðinum en um 1300 manns hafa svarað fundarboðinu. Baldur sagði í Morgunútvarpinu í dag að mögulega hafi þátttaka fólks í hlutabréfaútboði Icelandair kveikt áhuga á frekari hlutabréfaviðskiptum.
„En svo eru líka bara þeir sem hafa átt fjármagn, sem er í raun talsvert stór hópur, sem á eitthvert sparifé, hann hefur að miklu leyti leitað í fasteignir og innlánsreikninga sem hafa kannski verið á tiltölulega hagstæðum vöxtum. Nú hefur það verið að gerast,“ segir Baldur án þess að ætla sér að spá um fasteignamarkaðinn, „að þá fer þessi þróun þar sem fólk var kannski að kaupa auka íbúð og leigja út til ferðamanna og fasteignir hækkuðu meira en hlutabréfamarkaðir gera á blómlegum tímum oft og tíðum, sú tíð er mögulega bara liðin og þá er fólk að horfa til þess hvað það geti gert til þess að ávaxta féð.“
Minni þátttaka hér en á öðrum Norðurlöndum
Baldur segir að þátttaka almennings í hlutabréfaviðskiptum sé minni en í nágrannalöndum okkar sem sé neikvætt að mörgu leyti. Svíar skara þar fram úr með virkri þátttöku almennings í hlutabréfaviðskiptum og blómlegri umræðu um viðskipti, segir Baldur.
„Eitt af því sem þetta hefur gert er að tækni og nýsköpunarsamfélagið hefur blómstrað mikið þar því einstaklingsfjárfestar eru hlutfallslega áhugasamari um fjárfestingar í litlum fyrirtækjum heldur en stórir alþjóðlegir bankar og fagfjárfestar.“