Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Til marks um kraftinn og liðsandann í tónlistarsenunni

Mynd með færslu
 Mynd: Iceland Airwaves - RÚV

Til marks um kraftinn og liðsandann í tónlistarsenunni

17.11.2020 - 16:06

Höfundar

„Live from Reykjavík hefur sett viðmiðið hátt þegar kemur að því hvað tónlistarhátíð í streymi getur áorkað, og varpar ljósi á bæði þekkt nöfn og upprennandi bönd,“ segir í ítarlegri umfjöllun breska tónlistartímaritsins NME um tónlistarprógrammið sem sett var upp um helgina í staðinn fyrir Iceland Airwaves.

Eins og ógrynni annarra menningarviðburða þurfti að aflýsa Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni í ár vegna COVID-19 faraldursins og tilheyrandi samkomutakmarkana. Í stað þess var blásið til Live from Reykjavík, tónlistardagskrár á föstudags- og laugardagskvöldi þar sem margar helstu hljómsveitir landsins komu fram á stöðum sem hafa verið áberandi á Airwaves-hátíðinni í áranna rás. Meðal þeirra sem komu fram voru Hjaltalín, Bríet, Emiliana Torrini, Kælan mikla, Ólafur Arnalds og Of Monsters and Men.

Thomas Smith, gagnrýnandi NME, fer meðal annars lofsamlegum orðum um tónleika Emilíönu Torrini sem hafi ekki bara verið „himneskir á að hlýða heldur dæmi um hvernig hópur tónlistarmanna getur breytt sóttkví og einangrun í eitthvað yndislegt.“ Þá hafi liðsmenn Hatara verið klæddir eins og heimsins kynþokkafyllsta mótorkrosslið og hvert einasta lag hafi verið vægðarlaust og anarkískt teknópopp sem bæði refsaði og ögraði áhorfendum. Blaðamaðurinn klykkir út með því að segja Live from Reykjavík dæmi um hvernig tónlistin geti hrist fólk saman á erfiðum tímum. Þar hafi verið að finna atriði sem ekki sé hægt að leika eftir og framkvæmdin sé til marks um kraftinn og liðsandann sem einkenni íslensku tónlistarsenuna.

Hægt er að horfa á hápunkta úr Live from Reykjavík í mynd í spilara RÚV eða hlusta á dagskrána í heild sinni í útvarpsspilaranum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Airwaves í kvöld: Slökkva á símanum og hækka í botn

Tónlist

Góð landkynning að leyfa fólki að sjá þessa snillinga

Tónlist

„Mjög gott fyrir sálina að telja í og spila“

Airwaves

Stafræn tónlistarveisla í stað Iceland Airwaves í ár