Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þjóðverjar hvattir til leti

17.11.2020 - 18:30
Mynd: EPA-EFE / EPA POOL
Þjóðverjar standa frammi fyrir enn harðari sóttvarnaaðgerðum en hingað til. Illa gengur að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins þrátt fyrir að þar séu þegar í gildi miklar takmarkanir, allar krár hafi skellt í lás og veitingastaðir séu lokaðir. Nýjar auglýsingar frá þýskum stjórnvöldum, sem hampa hetjum baráttunnar við kórónuveiruna hafa vakið sterk viðbrögð. Þjóðverjar eru þar hvattir til að taka sér Lata-Geir til fyrirmyndar.

Nú er rætt er um að biðja fólk um að halda engin einkasamkvæmi fram að jólum, ungt fólk takmarki samgang í frítíma við einn vin, fjölskyldur umgangist í mesta lagi fólk af einu öðru heimili og þeir sem sýni jafnvel minnstu kvefeinkenni verði beðnir um að halda sig til hlés í að minnsta kosti fimm daga. Sýnist sitt hverjum og er ekki alveg ljóst hve langt verður gengið.  Í auglýsingum sóttvarnayfirvalda eru Þjóðverjar beðnir að  fylgja fordæmi hins hógværa borgara sem heldur sig heima og gerir sem minnst. Heill sófakartöflunni, nú er tími kolbítanna. 

Horft til baka úr framtíðinni

Auglýsingarnar byrja á því að stokkið er til framtíðar og þaðan litið aftur til dagsins í dag. Roskinn maður rifjar upp hinn erfiða vetur 2020 til 2021. Hann hafi þá verið nemandi í verkfræði við háskólann í Chemnitz og líkt og aðrir stúdentar hafi hann dreymt um að djamma og kynnast nýju fólki samhliða lærdómnum. En þá - og tónlistin verður enn dramatískari - skall önnur bylgja á. Ósýnilegur óvinur ógnaði öllu og örlög þjóðarinnar voru í þeirra höndum. 

Hvað gátum við gert, segir hann, jú við reyndum að sækja allan okkar styrk og hugrekki og gera... alls ekki neitt.

Dag eftir dag héldum við okkur heima og börðumst við kórónuveiruna, víglínan var sófinn og þolinmæðin okkar vopnið, við vorum húðlöt eins og lötustu þvottabirnir. Stundum segist hann ekki geta stillt sig um að brosa þegar hann rifjar upp þessa tíma, örlög þeirra sem urðu að hetjum kórónuveturinn 2020.  

Uppnefni eða heiðursnafnbót

Í annarri auglýsingu er uppsetningin svipuð, fullorðinn maður hampar heiðursmerki sem hann hlaut fyrir sinn þátt í stríðinu við veiruna. Áður hafi hann verið uppnefndur fyrir leti, legið undir ámæli fyrir að sitja inni í tölvunni sólarhringum saman og borða kaldan dósamat. Kórónuveturinn varð uppnefnið Lati-Tobbi að heiðurstitli og hann að fyrirmyndarborgara. 

Letin gat bjargað mannslífum, á erfiðum tímum varð auðvelt að verða hetja.

Á dæmalausum tímum þarf sérstakar hetjur 

Í þeirri þriðju segir kona sem situr með manni sínum frá því hvernig þau urðu sérlegar hetjur og hún rifjar upp veturinn þegar allt breyttist.  Þau voru þá nýbyrjuð saman en allt í einu voru allar vonir þjóðarinnar bundnar við unga fólkið. Æskan svaraði kallinu, tók sig til og gerði alls ekki neitt. Hékk bara heima og af stöku hugrekki lágu þau í rúminu og borðuðu djúpsteiktan kjúkling. Hvernig gátum við haldið þetta út, spyr hún sig og svarið er að sérkennilegir tímar kalla á sérstakar hetjur. 

Stríðstengingar hugnast ekki öllum

Þessar kímilegu auglýsingar sem ætlað er að ná til ungs fólks og brýna það í að halda fjarlægð og fækka smitleiðum falla þó ekki öllum í geð. Leti er kannski ekki það sem helst er samsamað þýskri þjóðarsál og sumum finnst orðfærið þar sem vísað er í stríð og hugrenningatengsl við seinni heimsstyrjöldina erfið og ósmekkleg.  Þær geri lítið úr bæði  þeim sem féllu í seinna stríði sem og þeim sem lifðu af og sögðu frá. Í öllu falli er greinilegt að auglýsingarnar hafa vakið mikla athygli og þá segir væntanlega einhver að tilganginum sé náð.