Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Smit á Austurlandi - börn í sóttkví

17.11.2020 - 21:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Foreldrar nokkurra grunnskólabarna á Héraði hafa í kvöld fengið símtöl frá smitrakningarteymi um að börnin þeirra séu útsett fyrir smiti og þurfi í sóttkví. COVID-smit hefur greinst á Austurlandi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru börn sem notað hafa skólabíl sem ekur í Eiðaþinghá og Hjaltastaðarþinghá komin í sóttkví. Foreldri sem fréttastofa ræddi við í kvöld segist hafa fengið þær upplýsingar að foreldrar væru ekki í sóttkví ef þeir telja sig geta haldið 2 metra fjarlægð. 

Fram kemur í pósti til foreldra gunnskólabarna á Héraði nú í kvöld að skólahaldi í Egilsstaðaskóla og Fellaskóla sé aflýst á morgun, miðvikudag. Bílstjórinn sem hafi greinst hafi síðast ekið skólabílnum á föstudag. Börn sem voru í honum þurfi að vera í sóttkví til föstudagsins 20. nóvember en þá fari þau í skimun og losni úr sóttkví ef niðurstaða gefur tilefni til. Litlar líkur séu taldar á að börn hafi smitast í skólabílnum enda hafi öllum sóttvarnareglum verið fylgt við skólaaksturinn.

Austurland hafði fram að þessu verið nánast smitlaust í þriðju bylgu faraldursins. Eina smitið hingað til voru tveir einstaklingar sem komu frá útlöndum og greindust á landamærum. 

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar á Austurlandi sendi út þessa tilkynningu nú rétt í þessu:

Staðfest smit kom upp á Austurlandi í dag. Viðkomandi er með væg einkenni og í einangrun en nýtur eftirlits og ráðgjafar COVID teymis Landspítala og heilbrigðisstarfsfólks HSA.

Smitrakning stendur yfir. Gera má ráð fyrir að einhverjir þurfi í sóttkví vegna þessa en óljóst enn hversu margir og hverjir. Þar sem hinn smitaði tengist tveimur grunnskólum á Héraði, Egilsstaðaskóla og Fellaskóla, fellur skólahald niður á morgun í þessum tveimur skólum. Foreldrum barna í skólunum tveimur verða send skilaboð í kvöld þar sem þetta verður kynnt formlega.

Þess er vænst að ráðstöfunin varðandi niðurfellingu skólahalds verði einungis í gildi á morgun. Hún er tekin í öryggisskyni þar sem smitrakningu er ólokið.

Um leið og mál skýrast munu þau kynnt á þessum vettvangi. Næstu skilaboð til foreldra frá skólastjórnendum ættu og að liggja fyrir eigi síðar en um hádegi á morgun. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV