Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skreyta snemma og mikið eftir erfiða tíma

17.11.2020 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Sigurjónsdóttir - Aðsend mynd
Jólaskreytingar í Dalvíkurbyggð fara snemma upp í ár eins og víða annars staðar og margir íbúar kveiktu á útiseríum um síðustu mánaðamót. Sérstaka athygli vekur ráðhúsið enda búið að skreyta það vel og mikið.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri segir svona fegurð til þess fallna að hækka hamingjustuðul íbúanna og vegfarenda allra og það sé eitt af markmiðum sóknaráætlunar landshlutans. Það sé svo sannarlega ekki vanþörf á eftir afar erfitt ár í mýmörgu tilliti. Hún segir íbúa hafa byrjað að skreyta 1. nóvember, fleiri hafi þá fylgt eftir enda hafi veðrið verið sérstaklega hentugt til skreytinga. Það sé ótrúlega gaman að ganga um bæinn á kvöldin og morgnana og njóta jólaljósanna.

Skemmst er frá því að segja þegar COVID-19 hópsmit kom upp á Dalvík fyrir nokkrum vikum. Þegar mest var voru 25 í einangrun í sveitarfélaginu og níundi hver Dalvíkingur í sóttkví. Nú er enginn í sóttkví og fimm í einangrun. „Svo við teljum að það sé búið að ná fyrir þetta í þessari bylgju“ segir Katrín.

Ráðhúsið á Dalvík
 Mynd: Katrín Sigurjónsdóttir - Aðsend mynd
Ráðhúsið á Dalvík