Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segja of miklar hömlur á dreifingu á ösku líkamsleifa

17.11.2020 - 08:11
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Of miklar opinberar hömlur eru á dreifingu á ösku líkamsleifa fólks og Ísland er eftirbátur nágrannalandanna hvað þetta varðar. Þetta segir Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur lagt fram frumvarp ásamt átta þingmönnum úr ýmsum flokkum um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Samkvæmt núgildandi lögum má eingöngu dreifa ösku, hafi fengist til þess leyfi. Bryndís ræddi málið í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.

„Það skal eingöngu leyft ef það er yfir öræfi eða sjó. Og ljóst að það liggi fyrir ótvíræð ósk. Það má ekki merkja neinn stað þar sem öskunni er dreift. Það má ekki vera í sumarbústaðlandinu þínu, ekki yfir stöðuvötnum, ekki  í alfaraleið
Það er það sem ég vil breyta,“ sagði Bryndís í Morgunútvarpinu.

Hún segist hafa fengið skilaboð víða að eftir að hún fór að vekja athygli á málinu og að sumir hafi sagst hafa brotið þessi lög með einum eða öðrum hætti. Víða á Norðurlöndunum megi dreifa ösku þar sem fólk kýs. 

„Það eru til dæmis til fallegir skógarlundir og þar má setja minningarskjöld á  tré. Til minningar um ömmu eða afa eða hvað sem er.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir