Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Netárásin var stór á íslenskan mælikvarða

epa07988392 A digital screen displays a live cyber hack attack during a press conference at the Federal Criminal Police Office (BKA) in Wiesbaden, Germany, 11 November 2019. The BKA presented the federal picture of the Cybercrime 2018 in Germany.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA
Stór netárás á íslenskan mælikvarða var gerð á fyrirtæki í fjármálageiranum á mánudag í síðustu viku. Árásin hafði afleiðingar víða meðal annars hjá fjarskiptafélögum.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Póst- og fjarskiptastofnunar í dag en fréttastofa RÚV greindi frá því í síðustu viku að fjöldi fólks hafi orðið netlaus í tæpa klukkustund um hádegisbil á mánudag.

 

Vegna bilunar í varnarbúnaði erlendis varð árásin mun stærri en ella hefði orðið. Enginn varanlegur skaði varð af árásinni. „Það er eitthvað sem við þurfum að skoða, hvernig við getum varið okkur fyrir því þegar þetta bilar,“ segir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður hjá Póst- og fjarskiptastofnun, í samtali við fréttastofu. Greining á árásinni er enn í gangi og því erfitt að segja nánar frá henni.

 

Árásin var svokölluð dreifð álagsárás, þar sem þrjóturinn beinir svo miklu álagi á vefþjóna frá svo mörgum mismunandi stöðum þeir geta ekki lengur gengt hlutverki sínu. Viðskiptavinir fyrirtækja og stofnana sem verða fyrir svona árás ná þá ekki sambandi við vefsíður og vefþjóna og fá ekki þjónustuna sem leitað er eftir.

Dreifð árás gerir netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar jafnframt mun erfiðara um vik að greina hvaðan árársin var gerð, enda var hún gerð frá mörgum mismunandi stöðum samtímis.

Í tilkynningu Póst- og fjarskiptastofnunar segir að árásin á mánudaginn 9. nóvember hafi haft víðtæk áhrif. „[H]ún hríslaðist um fjarskiptainnviði landsins og kom einnig niður á greiðsluþjónustu og auðkennisþjónustu hér á landi. Með góðri samvinnu tókst þó að lágmarka skaðann eins og hægt var.“

Árásin var gerð frá útlöndum en í síðustu viku var ekki vitað hvaðan. Aðeins er hægt að rekja netárásir að takmörkuðu leyti.

Fjármála- og fjarskiptafyrirtæki vinna nú með netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar að greiningu á árásinni og mótvægisaðgerðum til að minnka áhrif samskonar árása í framtíðinni.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðtali við Þorleif Jónasson.