Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Frakkar byrja að bólusetja í janúar

17.11.2020 - 16:32
epa08825053 Medical personnel carries out flu vaccine in the commune of Pioltello, Milan, 17 November 2020.  EPA-EFE/ANDREA CANALI
 Mynd: EPA-EFE - Ansa
Frakkar hyggjast byrja að bólusetja fólk gegn kórónuveirunni í janúar, svo fremi að lyfjafyrirtæki hafi fengið bóluefnin viðurkennd hjá eftirlitsstofnunum og geti afhent þau. Stjórnvöld óttast hins vegar að milljónir landsmanna neiti að láta bólusetja sig.

Skoðanakönnun sem gerð var í Frakklandi í september leiddi í ljós að einungis 59 prósent landsmanna voru samþykk að láta bólusetja sig. Jean Castex forsætisráðherra sagði í viðtali um síðustu helgi að hann óttaðist að of margir myndu neita að taka þátt í herferðinni.

Frönsk stjórnvöld áætla að verja einum og hálfum milljarði evra í kaup á bóluefnum á næsta ári. Að sögn talsmanns ríkisstjórnarinnar er áformað að kaupa nokkur hundruð milljónir skammta af ýmsum fyrirtækjum. 

Frá því að könnunin um vilja Frakka til að láta bólusetja sig var gerð hafa verið kynnt tvö lyf með annars vegar 90 prósenta virkni og hins vegar nær 95 prósenta virkni. Að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eru 42 lyf til viðbótar enn í þróun og prófunum hjá lyfja- og líftæknifyrirtækjum.

COVID-19 farsóttin hefur orðið yfir einni komma þremur milljónum að bana frá því að hún kom upp um síðustu áramót. Í Frakklandi eru um 33.500 manns á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins, þar af hátt í fimm þúsund á gjörgæsludeild. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV