Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir GRECO-skýrsluna vera áfellisdóm

16.11.2020 - 15:49
Mynd með færslu
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður og varaformaður þingflokks Pírata. Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ný skýrsla GRECO, Samtaka ríkja gegn spillingu, þar sem farið er yfir viðbrögð íslenskra stjórnvalda við tillögum samtakanna um að draga úr spillingu hér á landi, er áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu.  Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata. Hún segir að skýrslan sýni að lítil áhersla sé á spillingarvarnir hér á landi.

 

„Þessi skýrsla lýsir mjög vel hvernig þær fáu breytingar, sem þó hafa verið gerðar í átt að tillögunum, hafa falið í sér lágmarks viðleitni. Sem þó eiga langt í land,“ segir Þórhildur Sunna.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að íslensk stjórnvöld hafi orðið að fullu við fjórum af 18 tillögum GRECO um að draga úr spillingu. Þau fá nú 18 mánuði til að bæta úr. 

„Þetta er búið að vera viðvarandi vandamál hjá okkur lengi, við erum ekki með nogu góðar varnir gegn spillingu og það er vegna þess að það er ekkert sett í þær,“ segir Þórhildur Sunna.

 

Hún segir mikilvægt að eftirlit verði aukið með því að reglum um spillingavarnir sé framfylgt. Hún nefnir í því sambandi lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum

„Það er ekkert sem gefur það til kynna að við getum treyst því að hagsmunaskráningu æðstu valdhafa sé fylgt, því að er ekkert sjálfstætt eftirlit með þeim og vegna þess að forsætisráðherra á að hafa eftirlit með kollegum sínum. Það eru engin viðurlög við brotum, þannig að það við höfum enga ástæðu til að trúa að það eigi að gera eitthvað til að þessum reglum verði fylgt.“

Þórhildur Sunna segir að það sem sé ámælisverðast í skýrslunni sé að litlar úrbætur hafi verið gerðar á stjórnsýslu lögreglunnar. „Það er gríðarlegur áfellisdómur yfir dómsmálaráðuneytinu að hafa ekki tekist að uppfylla eina einustu tillögu frá GRECO gagnvart lögreglunni.“