Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hreimur - Skilaboðin mín

Mynd: Hreimur / Skilaboðin mín

Hreimur - Skilaboðin mín

16.11.2020 - 17:00

Höfundar

Skilaboðin mín er önnur sólóplata Hreims Arnar Heimissonar. Hún var nokkur ár í vinnslu og kom loks út á dögunum. Hreimur er landsþekktur til margra ára sem Hreimur í Landi og sonum en hefur auk þess verið virkur í tónlistinni með Made in Sveitin, samið og flutt þjóðhátíðarlög og tfekið þátt í lokakeppni Eurovision með Vinum Sjonna.

Hreimur ákvað árið 2015 að taka upp nýja breiðskífu og reyna að finna nýjan hljóm en þremur árum áður gaf hann út fyrstu sólóplötu sína: Eftir langa bið. Njáll Þórðarson, vinur Hreims og náinn samstarfsmaður til margra ára, hljómborðsleikari Lands og sona, var helsti hvatamaður verkefnisins og planið var að hafa hann á hliðarlínunni. Hreimi reyndist erfitt að byrja og komast almennilega í gang, vegna anna í dagvinnu og verkefnið sat á hakanum í nokkur ár. Njalli féll síðan frá árið 2018 eftir erfiða baráttu við krabbamein og Hreimur tileinkar honum titillag plötunnar: Skilaboðin mín.

Eftir nokkrar tilraunir við að hefja vinnu að þessari plötu komst Hreimur loks í gang þegar vinur hans Vignir Snær kom að borðinu. Hjólin fóru að snúast og á innan við ári náðu þeir félagarnir að klára plötuna. Hreimur segir að platan sé í raun ákveðin tiltekt hjá sér, tiltekt á lögum hans sem að pössuðu best saman og næðu mynda sterka heild. Hvort Hreimi og Vigni tókst að finna nýjan hljóm er annarra að dæma en Hreimur segist afskaplega sáttur við útkomuna og samstarfið við Vigni Snæ. Hann hafi borið verkefnið á herðum sér auk þess að eiga stórleik í útsetningum, hljóðfæraleik og hljóðblöndun.

Skilaboðin mín er plata vikunnar á Rás 2 og er flutt í heild sinni ásamt kynningum Hreims eftir tíufréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Hreimur - Skilaboðin mín
Hreimur - Skilaboðin mín