Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hækkun í Kauphöllinni í dag

16.11.2020 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutabréf hækkuðu í verði í dag í fimmtán af þeim nítján íslensku fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöllina. Mest hækkaði hlutabréfaverð í Eimskipi, um 5,26 prósent í 147 milljóna króna veltu, og næstmest í Icelandair, um 4,62 prósent í 942 milljóna veltu. Heildarvelta í dag nam 3,9 milljörðum króna og úrvalsvísitalan er nú 2.347,9 stig.

Mest voru viðskiptin í Marel, um 1,137 milljarð króna, og hlutabréf í Marel hækkuðu í verði um 1,51 prósent. Í Brim voru engin hlutabréfaviðskipti og verð lækkaði í þremur fyrirtækjum, Origo, Símanum og Tryggingamiðstöðinni, en í öllum tilvikum var lækkunin innan við eitt prósent. 

Jákvæðar fregnir af þróun bóluefnis í dag og síðustu daga kunna að hafa haft áhrif á væntingar á hlutabréfamarkaði, en í dag var greint frá því að þróun á bóluefni lyfjafyrirtækisins Moderna væri á góðri leið. Heildarhækkunin á hlutabréfaverði í dag nam þó ekki nema 1,7 prósentum, sem er mun minni en síðasta mánudag þegar verðið rauk upp um 4,3 prósent eftir að fregnir bárust af því að bóluefni lyfjarisans Pfizers gæfi góða raun.