
Fimmta stigs fellibylur nálgast Mið-Ameríku
Vindhraðinn í Iota var síðdegis kominn í 65 metra á sekúndu og fór í 72 í hviðum. Fellibyljamiðstöðin í Miami varar við ofsalegum vindi, beljandi rigningu og mikilli ölduhæð. Minnt er á að fimmta stigs fellibyljir séu lífshættulegir og valdi miklu eignatjóni. Búast megi við að hús hrynji, raflínur slitni og tré brotni, svo nokkuð sé nefnt. Einnig má gera ráð fyrir flóðum vegna úrhellisins. Jafnvel má reikna með að óbúandi verði í vikur eða mánuði á svæðum sem fellibylurinn fer um.
Útlit er fyrir að Iota nái landi í norðausturhluta Níkaragva og austurhluta Hondúras seint í kvöld. Íbúarnir eru enn ekki búnir að jafna sig eftir fellibylinn Eta sem fór yfir á dögunum og olli miklu tjóni og mannskaða. Þegar Iota fór yfir hluta Kólumbíu varð töluvert tjón þegar aurskriður féllu og ár flæddu yfir bakka sína. Að minnsta kosti þrír fórust og tólf er saknað.
Fleiri hitabeltisstormar og fellibyljir hafa myndast á Atlantshafi á þessu ári en undanfarin ár. Margir vísindamenn telja það stafa af loftslagsbreytingum.