Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Börn í 5. - 7. bekk mega vera grímulaus

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Grímuskylda grunnskólabarna í 5. til 7. bekk verður afnumin frá og með miðvikudegi og tveggja metra reglan líka. Tveir nýir kórónuveirustofnar sem valdið hafa hópsýkingum tengjast Póllandi og Bretlandi.

Þakkar fá smit þátttöku almennings 

Níu smit greindust innanlands í gær og voru þrír utan sóttkvíar. Fá sýni voru tekin eða 382. Þrír greindust í seinni landamæraskimun. Einn er með COVID smit á gjörgæslu Sjúkrahússins á Akureyri. 58 liggja á Landspítalanum með COVID eða glíma við afleiðingar sjúkdómsins. Tveir eru á gjörgæslu og báðir í öndunarvél. 

„Innanlandssmitum heldur áfram að fækka og er það bara ánægjuleg þróun og ber að þakka það góðri þátttöku almennings í þeim aðgerðum sem lagt var upp með,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi dagsins. 

Tengjast Bretlandi og Póllandi

Tveir nýir stofnar kórónuveirunnar hafa valdið tveimur hópsýkingum. Vitað er hvenær annar stofninn kom til landsins en hinn hefur ekki greinst í landamæraskimun og er því ekki vitað hvernig hann komst til landsins. Hópsýkingar vegna þessa eru tengdar tveimur fyrirtækjum. 

„Ég er ekki með nákvæma tölu, en þetta var dágóður fjöldi, kannski um eða yfir tíu, tuttugu manns.“

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem raðgreinir veiruna, segir stofninn, sem greindist á landamærunum, hafa greinst fyrst í byrjun október en síðan hafi hann greinst hjá starfsmönnum fyrirtækis í byrjun nóvember. Þessi stofn eða setröð veirunnar tengist Póllandi en þó ekki þeim stofni sem barst með tugum manna sem komu þaðan fyrr í þriðju bylgjunni.

Hina setröðina segir Kári hafa greinst á Bretlandi en reyndar hafi hún stökkbreyst eftir að hún greindist hér. Rétt er að minna á að kórónuveiran er jafnskæð sama hvernig hún er samsett. 

Nemendur á miðstigi endurheimta frelsið

Grunnskólabörn, sem undanfarið hafa þurft að vera með grímur í skólanum, þurfa það ekki lengur frá miðvikudegi sagði sóttvarnalæknir á upplýsingafundinum í morgun: 

„Eins og hefur komið fram í reglugerðinni að þá er, við þurfum bara aðeins að skýra þetta betur og ég þarf aðeins að ræða við ráðuneytið. En minn skilningur er sá að það séu fyrst og fremst fullorðnir einstaklingar í þessum skólum sem að þurfa að bera grímur, ekki börnin sjálf, sérstaklega í neðstu bekkjunum grunnskólanna. Ef að þetta er eitthvað óskýrt að þá þurfum við bara að samræma skilninginn á því.“

Við tóku viðræður hans og heilbrigðisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis eftir hádegi. Þær enduðu með því að reglugerð verður breytt og verður breytingin birt í Stjórnartíðindum á morgun.

Breytingin felst í því að grímuskylda 5., 6., og 7. bekkja grunnskóla verður afnumin frá 18. nóvember og tveggja metra reglan líka. Kennarar þessara aldurshópa þurfa heldur ekki að vera með grímur. Á útisvæðum verða engar kröfur sem hindra blöndun hópa, né kröfur varðandi fjarlægðartakmarkanir, nálægðartakmarkanir eða grímunotkun. 

Haraldur Briem og fleiri rannsaka Landakotssmitið

Landlæknir sagði á upplýsingafundinum að búið væri að fela teymi á vegum embættisins að gera sjálfstæða skýrslu um hópsmitið á Landakoti. Haraldur Briem fyrrverandi sóttvarnalæknir er sá eini utanaðkomandi í teyminu. 

Enn óljóst hvað tekur við á landamærum

Núverandi fyrirkomulag á landamærum gildir til 1. desember. Unnið hefur verið að því í stjórnsýslunni að skoða framhaldið og segist Þórólfur líka eiga eftir að skila tillögum þegar nær dregur. 

Ólíklegt að takist að uppræta veiruna

Þórólfur telur ekki líkur á að veiran hverfi. 

„Mér finnst það frekar ólíklegt að okkur takist að uppræta hana. Þannig að ég að við verðum að vera undir það búin að hafa hana svona í litlum fjölda en auðvitað væri það bara mjög ánægjulegt ef okkur tækist það.“