
Opna 40 deildir vegna langtímaáhrifa COVIDs
Langa COVID kalla Bretar fyrirbærið. Það nær yfir fólk sem glímir við öndunarerfiðleika, þreytu, verki og minnistap eða erfiðleika við að einbeita sér þrátt fyrir að það hafi yfirstigið sjálf veikindin fyrir löngu síðan. Við þessu á að bregðast á 40 deildum sem komið verður upp vítt og breitt um Bretland.
Kunna að skipta hundruðum þúsunda
Simon Stevens, forstjóri NHS, sagði að Langa COVID hefði áhrif á líf fjölda Breta. Þeir gætu á endanum skipt hundruðum þúsunda sem jafna sig ekki fyllilega. Stevens sagði nauðsynlegt að hefjast þegar handa við að meðhöndla og greina vanda þessa fólks. Þetta yrði að gera á sama tíma og mikið álag er af völdum COVID-19 sjúkdómsins og meðan tekist er á við önnur verkefni heilbrigðiskerfisins.
Læknar, hjúkrunarfræðingar, meðferðaraðilar og fleira starfsfólk á að greina og aðstoða við líkamlegt og andlegt mat á fólki sem glímir við langtímaáhrif COVID-19. Starfsemin hefst í lok þessa mánaðar.
Bæði ungir og aldnir í hættu
Í tilkynningu NHS er vísað í rannsókn sem unnin var við King's College í Lundúnum þar sem sagði að fólkið sem væri í mestri hættu að glíma lengi við COVID væru eldri borgarar, konur og fólk sem var með mikil einkenni í upphafi veikinda sinna. Um tíundi hver í þessum hóp þykir líklegur til að verða fyrir langtímaáhrifum veikinnar. Þá er vísað til nýrra vísbendinga um að meðal einkenna langa COVIDs kunni að vera varanlegur líffæraskaði.
Í bráðabirgðaniðurstöðum rannsóknar á ungu fólki sem var ekki í áhættuhópum kemur fram að fjórum mánuðum eftir að fólk veikist getur starfsemi ákveðinna líffæra verið skert. Þar á meðal eru hjarta, lungu, bris og lifur.