Kólnar næstu daga

15.11.2020 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Norðaustanátt verður ríkjandi í dag, fimm til þrettán metrar á sekúndu víðast hvar en þrettán til átján norðvestantil. Éljagangur norðan- og austanlands og stöku skúrir eða él við suðvesturströndina, en annars úrkomulítið. Á morgun verður norðan og norðaustan átta til fimmtán, hvassast austast. Birtir til á Suður- og Vesturlandi á morgun. Hiti kringum frostmark.

Pistill veðurfræðings er svohljóðandi: Norðlægar áttir ríkja framan af vikunni með éljalofti á norðan- og austanverðu landinu, jafnvel eitt og eitt él við suðvesturströndina í dag og á morgun. Hiti yfirleitt kringum frostmark. Lægir og léttir til um miðja vikuna, en kólnar jafnframt talsvert. Því er um að gera að fara varlega í umferðinni þar sem hálka gæti víða leynst á götum og gangstéttum, ekki síst í morgunsárið.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV