
Fréttir af morði í Teheran „uppspuni í Hollywood-stíl“
Talsmaður ráðuneytisins, Saeed Khatibzadeh, segir misráðna stefnu og aðgerðir Bandaríkjanna í Miðausturlöndum vera höfuðástæðu þess að „hryðjuverkahreyfingin" sem um ræðir hafi verið stofnuð á sínum tíma.
Reyna að sverta Íran til að fegra sjálfa sig
„Til þess að skjóta sér undan ábyrgð á glæpsamlegum gjörðum þessarar hreyfingar og annarra hryðjuverkahreyfinga í þessum heimshluta, þá reyna Washington og Tel Aviv öðru hvoru að útmála Íran sem land með tengsl við þessar hreyfingar, með því að spinna upp lygar og leka uppdiktuðum upplýsingum í fjölmiðla," segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.
Feðgin skotin á götu úti
Í frétt New York Times er því haldið fram að útsendarar Mossad hafi ekið mótorhjóli upp að Abdullah Ahmed Abdullah, öðru nafni Muhamad al-Masri, þar sem hann var á göngu eftir götu í Teheran ásamt dóttur sinni Miriam, tengdadóttur Osama bin Ladens og ekkju Hamza bin Ladens, og skotið þau bæði. Þetta á að hafa gerst 7. ágúst síðastliðinn og er haft eftir tveimur ónefndum, bandarískum leyniþjónustumönnum.
Segja allt önnur feðgin hafa verið myrt
Abdullah þessi er eða var háttsettur leiðogi al-Kaída hryðjuverkanetsins og sagður ábyrgur fyrir mannskæðum árásum á tvö bandarísk sendiráð í Afríku 7. ágúst 1998. Skömmu eftir að New York Times birti sína frétt birtu íranskir fjölmiðlar aðra útgáfu af atburðunum sem þar var lýst. Er því haldið fram að fórnarlömb hinna óþekktu morðingja hafi verið feðginin Habib Daoud, líbanskur prófessor í sagnfræði, og Maryam dóttir hans.
Á líbanskri fréttastöð var greint frá því að Doaud hefði verið félagi í Hesbollah, hreyfingu íslamista í Líbanon sem heldur úti hvort tveggja stjórnmálahreyfingu og vopnuðum sveitum.
Al-Kaída svarinn óvinur Íransstjórnar
Í frétt New York Times er fullyrt að Daoud-nafnið hafi verið dulnefni sem írönsk stjórnvöld úthlutuðu Abdullah, og að prófessorsstaðan hafi líka verið uppskálduð. Al-Kaída, sem er hreyfing öfgasinnaðra súnní-múslíma, hefur jafnan verið svarinn óvinur Íransstjórnar, sem samanstendur af sjíta-múslímum.
Hvers vegna Íransstjórn hefði átt að veita næst-æðsta leiðtoga al-Kaída hæli í landinu útskýra heimildamenn New York Times með því, að með því hafi þau ætlað að tryggja að hryðjuverkasamtökin ynnu engin hryðjuverk innan Írans, og/eða ætlað sér að fá samtökin til að vinna ódæðisverk gegn bandarískum skotmörkum.