
Brenna hús sín frekar en að leyfa öðrum að búa þar
Í vopnahléinu sem samið var um vegna átakanna um Nagorno-Karabakh-hérað milli Armena og Asera var ekki aðeins samið um að Aserar héldu því sem þeir hefðu hertekið í átökum síðustu vikna. Armenar þurfa einnig að skila svæðum sem þeir hafa lagt undir sig í Aserbaísjan utan Nagorni-Karabakj fyrir mánaðamót. Rússar hafa sent hermenn til friðargæslu í héraðinu.
Fyrir suma er þetta gleðiefni. Armenskir íbúar Stepanakert, höfuðborgar Nagorno-Karabakh, sem flúið höfðu borgina þegar átökin stóðu sem hæst, hafa nú fengið að snúa aftur. „Ég er fædd og uppalin í Stepanakert. Ég er mjög ánægð að vera komin þangað aftur. Við erum sæl með að rússneskir hermenn komu hingað,“ sagði kona sem hafði flúið átökin.
Á móti hafa Aserar sem bjuggu í borginni þurft að yfirgefa hana og rússneskir friðargæsluliðar sjá um að þeir fari rétta leið.
Aserar sem þurftu að flýja héraðið í stríðinu fyrir tæpum þrjátíu árum eru ánægðir, meðal annars Rugza Bayramova, sem flúði frá Shusha í Nagorno-Karabah árið 1992 og býr nú í Baku. „Við snúum aftur til Shusha. Nú er ekki lengur hægt að kalla okkur flóttamenn. Við munum búa og starfa aftur á okkar svæði.“
En í þorpi í Kalbajar, héraði sem Armenar hafa stjórnað í tuttugu og sex ár en eiga að afhenda Aserum samkvæmt samkomulaginu, ríkir ekki sama gleðin. Þar hafa sumir kveikt í húsum sínum þar sem þeir geta ekki hugsað sér að leyfa Aserum að búa í þeim. Garo Dadenusyan, einn íbúa þar, er þó ekki hrifinn af þessari afstöðu. „Við höfum vissulega í gegnum aldirnar litið á Asera sem óvini, en þrátt fyrir það eru þeir líka fólk. Þessi staða er ríkisstjórninni að kenna.“ Það er ljóst að það verður erfitt fyrir marga að yfirgefa heimili sitt til margra ára.
Forseti Aserbaísjan hefur hins vegar sagt að héraðið hafi verið hertekið með ólögmætum hætti og þetta fólk eigi því engan rétt á að búa þarna. Héraðinu átti að skila til Asera í dag, en fresturinn til þess hefur nú verið framlengdur um tíu daga.