Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Knúsfélagar í Belgíu og útgöngubann í Prag

14.11.2020 - 19:50
Erlent · Innlent · Belgía · COVID-19 · Danmörk · England · Skotland · Svíþjóð · Tékkland · Evrópa
Mynd: Geir Ólafsson / RÚV
Faraldurinn er enn í vexti í Evrópu og hafa mörg ríki gripið til hertra takmarkanna. Í Belgíu er mælt með svokölluðum knúsfélögunum og í Prag er útgöngubann eftir níu á kvöldin. Fréttastofa heyrði í nokkrum af þeim fjölda Íslendinga sem eru búsettir víða í álfunni

Aldís Mjöll Geirsdóttir býr í Leuven í Belgíu og segir að reglurnar séu strangari nú en í fyrstu bylgju. „Það mega bara 4 koma saman og þá með grímu og fjarlægð. Þá má maður vera í samskiptum við einn aðila nálægt og hann er kallaður svona knúsfélagi. Síðan er eiginlega allt lokað hérna nema matvörubúðir og apótek,“ segir Aldís. 

Baby Shark í stofunni og fundur í eldhúsinu

Bryndís Soffía Jónsdóttir McMaster og Ernest Bruce McMaster eru búsett í St Boswells í Skotlandi, nærri Edinborg. „Við vorum bæði að vinna heima. Bruce er að vinna í skóla og ég í leikskóla. Bruce vann yfirleitt í eldhúsinu og ég inni í stofu, sem gat verið flólkið þegar hann var með fund og ég var að syngja Baby Shark inni í stofu,“ segir Bryndís og hlær. Nú eru skólar hins vegar opnir og Bruce segir að það séu nokkrir mánuðir síðan þau máttu mæta aftur í vinnuna. „Það hefur verið áskorun að fá nemendur til þess að sinna tíðum handþvotti og grímuskyldu en þetta hefur gengur vel og við erum ánægð. Og allir kennarar fá afslátt í matvöruverslunum svo það er frábært.“

Tékkland hefur verið ein af þungamiðjum faraldursins í Evrópu síðustu vikur. Ásgeir H Ingólfsson, sem býr í Prag, segir að þar sé nokkurn veginn allt lokað. „Á sunnudögum er meira að segja kjörbúðum lokað. Það er bara hægt að fara í lúgu veitingastaði. Og fólk má vera úti að labba og slíkt en klukkan níu að kvöldi - og hún er nú að nálgast níu þegar þetta er tekið upp - þá er útgöngubann. Þannig að við þurfum bara að skjóta þetta vídjó og hlaupa svo heim.“

Þessi skilaboð og fleiri frá Íslendingum búsettum í Evrópu má sjá í spilaranum hér að ofan. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV