
Ítreka að Norlandair uppfylli skilyrði um flugþjónustu
Í fréttum í gær var greint frá því að hreppsnefnd Árneshrepps væri ósátt við að Vegagerðin hafi gengið til samninga við flugfélagið Norlandair fremur en Erni um flugþjónustu í hreppinn. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, viðraði þá sögusagnir um að Norlandair ætti ekki vélar sem stæðust nútímakröfur og því væri hætt við að flugþjónusta yrði lakari.
Þessu höfnuðu Vegagerðin og Norlandair í yfirlýsingu í gær. Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri Norlandair sagði meðal annars að félagið ætlaði sér að nota yngri flugvélar til Bíldudals og Gjögurs en Ernir. Þá benti hann á að fyrirtækið hefði þjónustað aðra áfangastaði eins og Vopnafjörð og Grímsey farsællega í áratugi.
Ernir bauð best til Hafnar
Vegagerðin fer nánar yfir útboðið á heimasíðu sinni í dag, en flug til Bíldudals og Gjögurs var boðið út saman en flugleiðin til Hafnar í Hornafirði sér. Þar er tekið fram að Ríkiskaup hafi talið rétt að semja við Norlandair eftir að hafa metið það sem svo að tilboð Ernis uppfyllti ekki skilyrði útboðsins og væri því ógilt.
Vegagerðin hafi hins vegar boðið Erni að leggja fram viðbótargögn, og að því loknu var tilboð félagsins metið gilt. Því hafi Erni verið boðinn samningur um flug til Hafnar, þar sem það bauð lægst, en Norlandair bauð lægst í flug til Bíldudals og Gjögurs.
Vegagerðin birtir tilboð þeirra þriggja flugfélaga sem bárust í flug til Gjögurs og Bíldudals. Þriðja flugfélagið, Flugfélag Austurlands ehf. kom hins vegar ekki til greina þar sem það stóðst ekki útboðskröfur.
Áætlunarflug til Gjögurs:
- Flugfélag Austurlands ehf. 88,1 milljón.
- Flugfélagið Ernir ehf. 197 milljónir.
- NorlandAir ehf. 139,4 milljónir.
Áætlunarflug til Bíldudals:
- Flugfélag Austurlands ehf. 303,5 milljónir.
- Flugfélagið Ernir ehf. 600,5 milljónir.
- NorlandAir ehf. 472,6 milljónir.
Áætlunarflug til Hafnar:
- Flugfélag Austurlands ehf. 370,2 milljónir.
- Flugfélagið Ernir ehf. 530,7 milljónir.
- NorlandAir ehf. 677,4 milljónir.