Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ísraelar myrtu Al-Kaída-mann í Íran fyrir Bandaríkin

14.11.2020 - 07:16
epa04857916 Kenyan members of the 7th August 1998 Bomb Blast Victims Association take part in lighting candles during a night vigil in Nairobi, Kenya, 23 July 2015. Protesters gathered outside the August 7th Memorial Park a day before the visit of US President Barack Obama to demand compensation from the US government for the 1998 bombing of the US embassy that killed over 200 people, including US nationals.  EPA/DANIEL IRUNGU
Naíróbíbúar í samtökum fórnarlamba og aðstandenda fórnarlamba sendiráðsárásarinnar 1998 mættu Barrack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, með kröfum um bætur, þegar hann kom í opinbera heimsókn þangað árið 2015. Talið er fullvíst að Abdullah Ahmed Abdullah hafi skipulagt árásirnar. Mynd: epa
Útsendarar ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad myrtu háttsettan leiðtoga hryðjuverkanetsins Al-Kaída á götu í Teheran, höfuðborg Írans í ágúst síðastliðnum, að undirlagi bandarískra stjórnvalda. Með honum var dóttir hans, sem líka var skotin til bana. Þetta hefur New York Times eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan bandarísku leyniþjónustunnar.

Ákærður og eftirlýstur vegna sprengjuárása á sendiráð

Hinn myrti er Abdullah Ahmed Abdullah, næstráðandi í Al-Kaída, sem var ofarlega á lista bandarísku alríkislögreglunnar yfir þá hryðjuverkamenn sem hún vildi helst koma höndum yfir. Hann var ákærður 1998 fyrir aðild að sprengjuárásum á sendiráð Bandaríkjanna í Tansaníu og Kenía.

Þögn um morðið þar til nú

Í frétt New York Times segir að tveir ísraelskir leyniþjónustumenn á mótorhjóli hafi skotið Abdullah til bana í Teheran hinn 7. ágúst. Og hann var ekki eina fórnarlamb ísraelsku flugumannanna, sem bönuðu líka dóttur hans, Miriam, ekkju Hamza bin Ladens, sonar Osama bin Ladens, sem var í för með honum. Opinberlega hefur hvergi verið minnst á morð þeirra feðgina fyrr en nú, hvorki af Bandaríkjamönnum, Ísraelum, Írönum né Al-Kaída.

Bandarísk yfirvöld hétu á sínum tíma tíu milljónum Bandaríkjadala í verðlaun fyrir upplýsingar sem leitt gætu til handtöku Abdullahs, sem í gögnum leyniþjónustunnar var sagður „reyndasti og hæfasti skipuleggjandi aðgerða [Al-Kaída] sem ekki er í haldi Bandaríkjamanna eða bandamanna þeirra,“ samkvæmt New York Times.

Í hryðjuverkaárásunum á sendiráðin í Kenía og Tansaníu, sem einmitt voru gerðar 7. ágúst 1998, týndu 224 manneskjur lífinu og yfir 5.000 særðust. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV