Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Höfuðborgarbúar flykkjast í langþráða klippingu

14.11.2020 - 19:15
Mynd: RÚV / RÚV
Hárgreiðslufólk býst við miklu annríki þegar hárgreiðslustofur á höfuðborgasvæðinu taka til starfa á miðvikudag eftir sex vikna hlé. Einn þeirra segir að síminn hafi varla stoppað eftir að tilkynnt var um tilslakanir á sóttvörnum í gær.

Hárgreiðslustofur á höfuðborgarsvæðinu fá að opna á ný á miðvikudag eftir sex vikna hlé, samkvæmt breytingum á sóttvarnaaðgerðum sem kynntar voru í gær. Áfram eru þó í gildi tíu manna fjöldatakmarkanir og þá þurfa allir að vera með grímu.

Böðvar Þór Eggertsson, eða Böddi klipp eins og hann er gjarnan kallaður, segir að viðskiptavinir hafi verið fljótir að hafa samband í gær til að panta tíma.

„Ég var að spá að henda símanum út í sjó því það bæði rigndi inn skilaboðum, símtölum og ég er ekki einu sinni búinn að fara í gegnum Messenger hjá mér því það eru bara óopnuð skilaboð lengst niður, bara nokkrir metrar,“ segir Böðvar.

Böðvar deilir stofu með átta öðrum hársnyrtum og því geta ekki allir sinnt viðskiptavinum á sama tíma.

„Við erum að undirbúa okkur og bóka okkur þannig að það sé bara einn kúnni inni í einu því við ætlum að hlíta þessum reglum frá A til Ö,“ segir Böðvar.

Hann segir viðbúið að unnið verði frá morgni til kvölds svo hægt verði að sinna sem flestum en hins vegar sé ekki öruggt að allir sem vilja komist í klippingu fyrir jól.

„Ég held að þeir sem ekki eru búnir að panta eða undirbúa sig á einhvern hátt, tryggja sig, já ég get trúað því að það verði ekki auðvelt,“ segir Böðvar.

Slakað verður á fjöldatakmörkunum í framhaldsskólum á miðvikudag svo nemendur geti í auknum mæli farið að stunda staðnám. Kennsla hefur að mestu leyti farið fram með rafrænum hætti eftir að aðgerðir voru hertar í haust og hafa sumir skólar þegar ákveðið að halda áfram með það fyrirkomulag þann stutta tíma sem er eftir af þessari önn.

Kolbeinn Freyr Björnsson og Viktor Ingi Birgisson eru nemendur í Kvennaskólanum í Reykjavík. Þeir segja betra að klára þessa önn í fjarnámi og bíða með breytingar þangað til faraldurinn sé að mestu genginn niður. Sumir nemendur eigi nána ættingja í áhættuhópi og aðrir vilji síður lenda í veikindum svona stuttu fyrir jól.

„Það eru mjög margir nemendur sem hafa áhyggjur af því að fara í sóttkví eða einangrun. Bara stutt í jólin. Langflestir vilja bara klára þetta í fjarnámi,“ segir Kolbeinn. 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV