Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sakar framkvæmdastjóra Ernis um rangfærslur

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri flugfélagsins Norlandair sem Vegagerðin hefur samið við eftir útboð um flug til Bíldudals og Gjögurs sakar forstjóra Ernis, sem einnig tók þátt í útboðinu, um „ítrekaðar rangfærslur“ varðandi útboðið.

Samkvæmt frétt RÚV fullyrti forstjóri Ernis að lög hafi verið brotin þegar Vegagerðin gekk til samninga við Norlandair og að lögfræðingar Ernis væru að kanna næstu skref. Flugleiðirnar hafa lengi verið í höndum félagsins.

Lengi hefur staðið styr um útboðið sem upphaflega fór fram í apríl. Þá voru boðnar upp flugleiðir milli Reykjavíkur og Hafnar, Gjögurs og Bíldudals þar sem Norlandair átti lægsta boð í þær tvær síðarnefndu.

Ernir kærði niðurstöðuna með þeim rökstuðningi að vélar samkeppnisaðilans stæðust ekki kröfur útboðsins. Vegagerðin greip þá til þess ráðs að hægja á ferlinu og gaf þátttakendum tækifæri til að skilgreina tilboð sín betur. Fór svo að lokum að Ernir fékk flugleiðina milli Reykjavíkur og Hafnar til sín.

Í yfirlýsingu frá Norlandair segir Friðrik að kærur Ernis hafi tafið útboðsferlið og dregið mjög úr tíma til undirbúnings en flug Norlandair hefjast á mánudaginn. Að sögn Friðriks var boð félagsins um 185 milljónum lægra en Ernis. Norlandair uppfyllti öll skilyrði útboðsins að hans sögn og samningur undirritaður á grundvelli hæfis og verðs við Vegagerðina 2. nóvember.

Flugvélakostur Norlandair og fjárhagshæfi uppfyllir öll skilyrði útboðsins og er hafið yfir vafa. Það er sorglegt að þurfa að bera til baka ítrekaðar rangfærslur eftir þátttöku í opinberu útboði. Til þess er stjórnsýslufarvegur og treystum við því að þar sé allt gert á eðlilegan og faglegan hátt.
Að endingu óskum við Herði Guðmundssyni og starfsfólki flugfélagsins Ernis velfarnaðar og friðar,

segir enn Friðrik enn fremur.